Karlakór Kef vortónl
Karlakór Kef vortónl

Íþróttir

Ágæt byrjun hjá Suðurnesjaliðunum
Voga-Þróttarar fögnuðu góðum útisigri í fyrstu umferð.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 4. maí 2025 kl. 12:08

Ágæt byrjun hjá Suðurnesjaliðunum

Fyrsta umferð neðri deildanna í knattspyrnu byrjaði um helgina. Hjá körlunum eru Þróttur Vogum og Víðir í 2. deild og Reynir Sandgerði er í 3. deild. Tveir sigrar sáu dagsins ljós og eitt jafntefli. Í kvennaboltanum eru Keflavík og Grindavík/Njarðvík í Lengjudeildinni.

Þróttur í Vogum vann góðan útisigur á Kára 1-2. Guðni Sigþórsson náði forystu fyrir Vogamenn á 14. mínútu og Jóhannes Karl Bárðarson bætti við öðru á 18. mínútu, hörku byrjun hjá Þrótturum og þeir héldu forystunni allan leikinn. Heimamenn í Kára náðu þó að minnka muninn með marki á 90. mínútu. Lokatölur 1-2.

Víðir í Garði fékk Víking Ólafsvík í heimsókn og heimamenn náðu forystu á 14. mínútu þegar Domincic Lee Briggs skoraði. Allt stefndi í sigur hjá Garðmönnum en Ólafsvíkingar jöfnuðu með marki á 90. mínútu.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Reynismenn í Sandgerði létu ekki mark gestanna á 5. mínútu á sig fá og svöruðu með marki sjö mínútum síðar. Þá jafnaði Jordan Smyle. Sandgerðingar hressust því fljótlega og bættu við mörkum. Ólafur Darri Sigurjónsson skoraði á 28. og 42. mínútu og heimamenn fóru í hálfleik með 3-1 forystu. Síðari hálfleikur var rólegri í markaskorun en Reynismenn bættu þó við marki á 90. mínútu með marki Pálmars Sveinssonar. Lokatölur 4-1 fyrir Reyni og góð byrjun hjá Sandgerðingum.

Í kvennaboltanum byrjaði Grindavík/Njarðvík á sigri gegn ÍBV. Brookelynn Paige Entz skoraði fyrir heimakonur á 44. mínútu. ÍBV jafnaði þremur mínútum síðar en Danai Kaldaridou skoraði sigurmark Suðurnesjaliðsins á 85. mínútu og tryggi Grindavík/Njarðvík sinn fyrsta sigur í Lengjudeildinni.

Keflavíkurkonur sem féllu úr Bestu deildinni í fyrra og er spáð sigri í deildinni, léku á útivelli gegn Haukum í Hafnarfirði. Heimakonur gerðu sér lítið fyrir og unnu leikinn 2-1. Haukakonur skoruðu á 39. og 45. mínútu en Ariela Lewis minnkaði muninn fyrir Keflavík á 90. mínútu en það dugði skammt og byrjunin því óvænt tap í fyrstu umferð.

Hafnir eru í 4. deild karla og leika fyrsta leik sinn á tímabilinu næsta fimmtudag í Nettó höllinni í Reykjanesbæ gegn Álftanesi.

Ólafur Darri Sigurjónsson skoraði á 28. og 42. mínútu í sigri Sandgerðinga.