Þrumað á þrettán: Guðjón með nauma forystu
Úrslitakeppni tippleiks Víkurfrétta hélt áfram um síðustu helgi og komu Garðbúarnir best út úr helginni, náðu 10 réttum en Brynjar Hólm var ekki fjarri og hesthúsaði 9 réttum. Guðjón er áfram á toppnum, er kominn með 18 rétta, Björn þar í humátt á eftir með 17, Brynjar með 15 og trommuleikarinn taktfasti, Joey Drummer, rekur lestina með 7 rétta.
Það er ástæða fyrir að Joey sé bara með sjö rétta en hann hefur ekki kastað hvíta handklæðinu inn í hringinn.
„Ég var því miður andlega veðurtepptur í síðustu viku og ákvað því bara að gefa þessum ungu folum sem eru í Finals á móti mér, smá sumargjöf í formi forgjafar í leiknum góða.
Mér finnst meira gaman að hafa alvöru áskorun fyrir framan mig og verður heldur betur fróðlegt að sjá hvort þessi fáheyrða forgjöf dugi til að halda Drummsen kvikindinu í fjarska þegar leikurinn verður loks gerður upp. Larry Joe Bird #33 er HvítaGeitin, ég hef ávallt verið einstaklega umvafinn & lífstengdur tölunni 3 og 33 síðan ég var 3 ára peyi. #NostraDrummsen sér hér 33 birtast í fjarska ef allir alheimsvættir mæta saman til leiks á tíma lífsins, 7 + 13 + 13,” sagði Joey.
Geirnegling
Forystusauðurinn Guðjón er áfram með alla fætur geirneglda við jörðina.
„Ég náði mér vel á strik um helgina og var gaman að fara yfir seðilinn, ég var með fyrstu átta leikina rétta og viðurkenni að pumpan tók nokkur aukaslög. Ég er ánægður með að keppinautar mínir hafi náð sér á strik líka en saknaði vissulega Joey og án þess að ég telji mig þurfa forgjöf, tek ég sumargjöf hans fagnandi, þetta er höfinglegt af Joey og óska ég honum 13 réttra í síðustu umferðunum, þá gæti þetta orðið spennandi en mér er mikið í mun að lesendur fái að upplifa spennu í sambandi við þennan tippleik,“ sagði Guðjón.
Gefst ekki upp núna frekar fyrri daginn
Stálmúsin Björn var ánægður með gengi sitt um síðustu helgi og hlakkar jafnvel ennþá meira til ferðarinnar á Wembley 17. maí.
„Ég var ánægður með síðustu helgi og sé að minn gamli Víðis-félagi ætlar sér að sprikla allt til loka í þessum leik. Hvort ég breyti um taktík núna veit ég ekki, ég finn hvernig mér vex fiskur um hrygg með hverri umferðinni og ætla mér að halda áfram að bæta mig, ef það tekst þá tel ég að ég eigi sigurinn vísan,“ sagði Björn.
Sigurvíma
Brynjar Hólm var enn að fagna deildarmeistaratitli Liverpool þegar blaðamaður náði tali af honum.
„Það er gaman að vera Pool-ari í dag, því ber ekki að neita. Allur minn fókus um helgina fór í þennan leik en auðvitað átti ég að setja alla orkuna í tippseðilinn. Að ná samt níu réttum gefur mér byr undir báða vængi, þar sem tuttugasta dollan er komin í skáp Liverpool, get ég einbeitt mér að tippinu og ætla mér að eiga frábæran endasprett, hann gæti hugsanlega dugað mér til að komast á Wembley,“ sagði Binni.
