Byggjum upp íþróttamenningu þar sem allir geta blómstrað
Setjum skýra stefnu um áfengi á íþróttaviðburðum
Í Lýðheilsuráði Reykjanesbæjar var lagt fram erindi frá Félagi íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi (FÍÆT), þar sem skorað er á íþróttahreyfinguna, ásamt stjórnvöldum og sveitarfélögum að taka af alvöru umræðu um áfengissölu á íþróttaviðburðum á landinu.
Íþrótta- og tómstundastarf gegnir lykilhlutverki í forvörnum barna og ungmenna. Þar mótast meðal annars jákvæð gildi, heilbrigðar venjur og félagsfærni. Því skiptir máli að skipulagning íþróttaviðburða og umhverfi þeirra taki mið af öryggi og vellíðan allra, þá ekki síst yngstu þátttakendanna.
Íþróttaviðburðir eiga að vera samkomur þar sem öll eru velkomin til að styðja sitt lið og eiga góða stund með fjölskyldu eða vinum. Börn og ungmenni sækja þessa viðburði af kappi og hvetja sitt lið áfram af miklum eldmóð. Þar líta þau upp til eldri keppenda og þeirra áhorfenda sem einnig sækja viðburðinn. Því er mikilvægt að umgjörð viðburða styðji við heilbrigðan lífsstíl, fyrirmyndir og jákvæða menningu.
Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar vill vekja athygli á þeirri þróun að sala og neysla áfengis fer vaxandi á íþróttaviðburðum. Slíkt dregur úr því jákvæða og uppbyggilega umhverfi sem við viljum skapa í kringum íþróttir og samræmist ekki því forvarnarhlutverki sem íþróttahreyfingin gegnir.
Við hvetjum öll íþróttafélög í Reykjanesbæ til að:
Setja sér skýrar reglur um meðferð áfengis á viðburðum
Tryggja aðgangsstýringu og virkt eftirlit þannig að börn og ungmenni komist ekki í snertingu við áfengi
Halda stúkum og „fanzone“ svæðum fjölskylduvænum
Íþróttahreyfingin hefur tækifæri til að vera leiðandi afl í að móta uppbyggilega menningu í samfélaginu. Með því að forgangsraða lýðheilsu sýna félögin ábyrgð og vilja til að vera hluti af lausninni. Látum sameiginlegt markmið okkar vera að byggja upp öflugt, jákvætt og aðgengilegt umhverfi fyrir öll, þar sem börn og ungmenni fá að njóta sín í heilbrigðu og öruggu umhverfi.
Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar