Karlakór Kef vortónl
Karlakór Kef vortónl

Fréttir

Lýðheilsuráð vill ART-þjálfun í alla grunnskóla
Föstudagur 2. maí 2025 kl. 08:05

Lýðheilsuráð vill ART-þjálfun í alla grunnskóla

Hvetur einnig til fjölskyldu-útfærslu

Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar hvetur til þess að svokölluð ART-þjálfun (Aggression Replacement Training) verði innleidd í alla grunnskóla sveitarfélagsins og jafnframt að Reykjanesbær skoði að taka upp fjölskyldu-ART sem snemmtækan stuðning við börn og fjölskyldur. Ráðið leggur einnig til að skipaður verði sérstakur teymisstjóri til að tryggja samræmda framkvæmd í skólunum.

Málefnið var til umfjöllunar á fundi lýðheilsuráðs þann 9. apríl, þar sem Sigurbjörg Jónsdóttir og Jenný Magnúsdóttir frá Holtaskóla kynntu hvernig ART-þjálfun hefur verið nýtt í skólastarfinu þar.

ART-þjálfun er uppeldisfræðilegt módel sem beitir hlutverka-leik og líflegum aðstæðum til að efla félagsfærni, sjálfstjórn og siðferðisvitund nemenda – þrjá lykilþætti sem rannsóknir sýna að skila bestum og varanlegum árangri þegar unnið er með í sameiningu.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Þjálfunin hefur það að markmiði að hjálpa börnum að takast á við hegðunarvanda og samskiptavanda á uppbyggilegan hátt og yfirfæra nýja hegðun í leik og daglegt líf.

Í bókun lýðheilsuráðs kemur fram að ráðinu þyki mikilvægt að þessi aðferðafræði verði samræmd innan grunnskólanna og að settur verði teymisstjóri sem haldi utan um þróun og framkvæmd ART-nálgunarinnar innan skólasamfélagsins.

Ráðið hvetur einnig til þess að Reykjanesbær innleiði svokallaða fjölskyldu-ART, sem hefur sýnt árangur í að bæta samskipti innan fjölskyldna, efla foreldrahæfni og draga úr þörf á frekari aðstoð frá félagskerfinu. Með því sé hægt að grípa fyrr inn í mál og styðja við farsæld barna áður en vandi dýpkar.

Lýðheilsuráð þakkar Holtaskóla sérstaklega fyrir metnaðarfulla og fræðandi kynningu og lýsir yfir vilja til að styðja við frekari innleiðingu ART-aðferða í menntakerfi bæjarins.