Karlakór Kef vortónl
Karlakór Kef vortónl

Fréttir

Sæbýli hf. byggir fyrstu áframeldisstöðina í heiminum á Reykjanesi
Föstudagur 2. maí 2025 kl. 09:10

Sæbýli hf. byggir fyrstu áframeldisstöðina í heiminum á Reykjanesi

Ylsjór frá raforkuveri HS Orku í Auðlindagarði félagsins skapar einstakt tækifæri til ræktunar hlýsjávartegunda á Íslandi

Sæbýli hf., frumkvöðull í ræktun og framleiðslu sæeyrna vinnur nú að undirbúningi nýrrar áframeldisstöðvar í Auðlindagarði HS Orku á Reykjanesi. Þar hyggst fyrirtækið nýta einstakar aðstæður, þar á meðal hraunsíaðan ylsjó frá Reykjanesvirkjun, sem gerir mögulegt að rækta hágæða hlýsjávartegundir sem annars væri ekki hægt að ala á Íslandi.
Vala Valþórsdóttir.

„Að hafa aðgang að hreinum og stöðugum heitum sjó er algjör lykill að okkar velgengni.Við höfum þegar komið upp tilraunaaðstöðu á svæðinu til að prófa búnað og umhverfi, og undirbúum nú hönnun áframeldisstöðvar sem mun verða sú fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu,“ segir Vala Valþórsdóttir, forstjóri Sæbýlis hf.

Sæbýli er þar í samstarfi við Stolt Sea Farm sem í þessum mánuði fagnar 10 ára starfsafmæli sínu í Auðlindagarðinum og á sama svæði er einnig áformað að hefja ræktun á styrju hjá Icelandic Sturgeon og mögulega sjávarþörungaræktun.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Sæbýli rekur nú þegar klakdýraeldi, ungviðaframleiðslu og áframeldi í Grindavík, þar sem fram fer stöðug framleiðsla á ungviðum sem eru ætluð til áframeldis upp í markaðsstærð. Starfsemin í Grindavík hefur verið byggð upp með markvissum hætti og gegnir hún lykilhlutverki í vaxtastefnu fyrirtækisins. Næsta skref er að stækka starfsemina með uppbyggingu nýrrar áframeldisstöðvar í Auðlindagarðinum. Stefnt er að því að framkvæmdir við stöðina hefjist árið 2026 og að starfsemin flytjist þangað að hluta eða öllu leyti árið 2027. Þar er áætlað að auka framleiðslugetu í allt að 1.000 tonn á næstu árum og svigrúm er til staðar fyrir frekari uppbyggingu og vöxt.

Samstarf og sameiginleg sýn

Sæbýli hf. er eitt þeirra fyrirtækja sem verða hluti af ylsjávargarði, einstöku frumkvöðlaverkefni innan Auðlindagarðsins þar sem auðlindir og affallsstraumar eru nýttir með ábyrgum hætti og með sjálfbæra matvælaframleiðslu að leiðarljósi.

Jón Ásgeirsson, framkvæmdastjóri stefnumótunar, framfara og Auðlindagarðsins hjá HS Orku:

„Það er afar ánægjulegt að sjá fyrirtæki á borð við Sæbýli nýta sér tækifæri Auðlindagarðsins til nýsköpunar og sjálfbærrar matvælaframleiðslu. Aðgangur að hreinum ylsjó gerir svæðið einstakt í alþjóðlegu samhengi. Við fögnum því að fleiri fyrirtæki sjái þau fjölmörgu tækifæri sem felast í fjölnýtingu auðlinda á þessu sérstæða svæði. Með sameiginlegri sýn og samstarfi getum við stuðlað að sjálfbærri þróun og aukinni nýsköpun í matvælaframleiðslu. Einnig mun koma Sæbýlis í Auðlindagarðinn styðja við þróun hringrásarhagkerfis í garðinum, þar sem affall eins verður hráefni annars.“