Fréttir

Samfélagið í Vogum nýtur ávinnings af bættum rekstri
Miðvikudagur 31. desember 2025 kl. 10:04

Samfélagið í Vogum nýtur ávinnings af bættum rekstri

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga samþykkti á fundi sínum fyrr í mánuðinum fjárhagsáætlun næsta árs og þriggja ára áætlun fyrir árin 2026–2029. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verði jákvæð um 168 milljónir króna og að veltufé frá rekstri nemi ríflega 340 milljónum króna, eða 11,4% af áætluðum heildartekjum ársins.

Í ávarpi Guðrúnar P. Ólafsdóttur bæjarstjóra í greinargerð með fjárhagsáætluninni kemur fram að áætlunin endurspegli traustari rekstur eftir tímabil fjárhagsþrenginga og aðhalds. Hagræðingu í rekstri verði skilað til íbúa með lækkun fasteignaálaga og eflingu þjónustu.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Áfram verði unnið að uppbyggingu atvinnulífs í sveitarfélaginu með það að markmiði að tryggja tekjustofna og fjölga atvinnutækifærum í heimabyggð, með sérstakri áherslu á Keilisnes. Ábyrgð og festa í rekstri skapi þannig grundvöll að öflugri þjónustu og áframhaldandi uppbyggingu innviða í stækkandi sveitarfélagi.

Í greinargerðinni er jafnframt nýlunda í ár, þar sem helstu áherslur í starfseminni árið 2026 eru dregnar saman á skýran hátt.