Guðmundur Leo dúx FS á haustönn með 9,71 í meðaleinkunn
Fjölbrautaskóli Suðurnesja útskrifar 54 nemendur af haustönn
Brautskráning haustannar og skólaslit Fjölbrautaskóla Suðurnesja fóru fram föstudaginn 19. desember. Að þessu sinni útskrifuðust 54 nemendur; 32 stúdentar, 13 úr verk- og starfsnámi, 7 iðnmeistarar, 2 luku prófi af tölvuleikjabraut Keilis og 2 útskrifuðust af starfsbraut. Þess má geta að sumir luku prófi af fleiri en einni braut. Konur voru 30 en karlar 24. Alls komu 39 úr Reykjanesbæ, 9 úr Suðurnesjabæ, tveir úr Grindavík og Vogum og einn úr Reykjavík og Hafnarfirði.
Dagskráin fór fram á sal skólans og var með hefðbundnu sniði en athöfninni var einnig streymt. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar. Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Ívar Valbergsson vélstjórnarkennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks. Að venju var flutt tónlist við athöfnina en þar léku nemendur skólans sem eru einnig nemendur í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Kristófer Orri Grétarsson, Matthías Sigurþórsson og Sindri Sveinsson léku á gítar ásamt kennara sínum, Arnari Frey Valssyni. Rannveig Jónsdóttir lék svo á selló en Mariia Ishchenko lék undir á píanó.

Verðlaunahafar FS á haustönn 2025.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og þátttöku í félagslífi en yfirlit yfir verðlaunahafa má sjá hér. Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Guðmundur Leo Rafnsson styrkinn. Guðmundur Leo hlaut einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi en hann útskrifaðist af raunvísindabraut með 9,71 í meðaleinkunn.
Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Þau Berglind Harpa Óladóttir, Rakel Elísa Haraldsdóttir, Stefan Bodrozic, Thelma Kristín Kristinsdóttir og Stefan Bodrozic fengu öll 40.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í tjáningu og ræðumennsku.
Við athöfnina veitti skólameistari Elínu Rut Ólafsdóttur áfangastjóra og Ívari Valbergssyni vélstjórnarkennara gullmerki Fjölbrautaskóla Suðurnesja en þau hafa bæði starfað við skólann í 25 ár. Það er hefð að veita starfsfólki skólans þessa viðurkenningu við þessi tímamót.
Viðurkenningar á útskrift á haustönn 2025
Á útskrift haustannar voru að venju veittar viðurkenningar fyrir góða frammistöðu í námi. Að þessu sinni voru sex útskriftarnemendur með yfir 9 í meðaleinkunn en Guðmundur Leo Rafnsson var með hæstu einkunn við útskrift en hann var með 9,71 í meðaleinkunn. Á myndinni með fréttinni eru verðlaunahafar, frá vinstri eru Guðmundur Leo, Katrín Tinna, Fjóla Margrét, Jóhanna Ýr, Halldóra Rún, Deriana, Sunneva og Stefan.
Guðmundur Leo Rafnsson fékk viðurkenningar frá Verkfræðistofu Suðurnesja og Stærðfræðifélaginu fyrir góðan árangur í stærðfræði, verðlaun frá Þýska sendiráðinu fyrir árangur sinn í þýsku og gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum. Guðmundur Leo hlaut Raungreinaverðlaun HR sem veitt eru fyrir góðan árangur í raungreinum á stúdentsprófi. Um er að ræða bókaverðlaun, auk þess sem verðlaunahafar sem kjósa að hefja nám við Háskólann í Reykjavík fá niðurfelld skólagjöld fyrstu önnina í námi. Guðmundur Leo fékk námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur þeim nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Guðmundur 100.000 kr. styrk. Hann fékk einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.
Fjóla Margrét Viðarsdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í ensku og spænsku, viðurkenningu frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði og gjafir frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í íslensku og erlendum tungumálum.
Sunneva Bergmann Ásbjörnsdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í ensku, íslensku og spænsku og hún fékk einnig viðurkenningu frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði.
Stefan Bodrozic hlaut viðurkenningar fyrir góðan árangur í stærðfræði, forritun, vefforritun, tölvugreinum og íslensku sem annað tungumál.
Halldóra Rún Gísladóttir fékk verðlaun frá þýska sendiráðinu fyrir árangur sinn í þýsku og viðurkenningu frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir góðan árangur í náttúrufræðigreinum.
Deriana Fortes Gomes fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í fata- og textílgreinum og fyrir árangur sinn í listasögu.
Jóhanna Ýr Óladóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði.
Katrín Tinna Snorradóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í sögu.
Sara Mist Atladóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í sálfræði.





