90 ár frá brunanum í Keflavík — Atburður sveipaður þögn
Þann 30. desember 1935 varð eldur laus á jólatrésskemmtun barna í samkomuhúsinu Skildi í Keflavík með þeim afleiðingum að 10 létu lífið, þar af sjö börn.
90 ár eru liðin frá atburðinum sem var mikið áfall fyrir lítið samfélag en aldrei hafa fleiri látið lífið í bruna á Íslandi að vitað sé. Missirinn var mikill og margir hlutu alvarleg brunasár.
Skjöldur var helsta samkomuhúsið í bænum og rekið af Ungmennafélagi Keflavíkur. Þar fór fram fjölbreytt starfsemi og má þar nefna bíósýningar, skemmtanir og dansleiki en þar voru einnig haldnar íþróttaæfingar félagsins.
Þótt bruninn væri hörmulegur hefði getað farið verr. Margir unnu óeigingjarnt hjálparstarf og komu þannig í veg fyrir enn meira tjón og mannskaða.
Sorgin var lamandi fyrir lítið samfélag og var atburðurinn lengi hjúpaður þögn.
Börnin sem sóttu jólaskemmtunina voru skilin eftir ein með sína sorg og það sem þau sáu. Þögnin er dýr og lifir kynslóð fram að kynslóð - og sárið helst opið.
Heilun hefst ekki þegar tíminn líður, heldur þegar samfélag þorir að nefna sárið. Að tala um atburðinn, viðurkenna missinn og leyfa sorginni að fá rödd.
Ég fann það þegar ég talaði við þá einstaklinga sem upplifðu þennan atburð að hann var ljóslifandi í þeirra minni. Það var stutt í tárin. Ég er þeim öllum þakklát sem sögðu söguna sína, þótt erfitt væri. Því hún gaf næstu kynslóðum svör við spurningum sem aldrei var hægt að nefna upphátt. Þannig gat sagan haldið áfram.
Minnumst þeirra sem létu lífið þennan dag, með því að tala um atburðinn heiðrum við minningu þeirra og heilum þetta stóra sár.
Með því að minnast atburðarins minnumst við líka þeirra sem sýndu hetjudáð og lögðu líf og limi í hættu - svo ekki fór verr.

Dagný Maggýjar flutti þessi orð á minningarstundinni en hún gaf út bók um brunann fyrir fimmtán árum.






