Grípa þarf til aðgerða vegna áfalla í atvinnulífi
Atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar segir stöðu atvinnulífs á Suðurnesjum valda áhyggjum og að bregðast verði við eftir áföll víða um land, sem hafi einnig bitnað á Reykjanesbæ með auknu atvinnuleysi.
Þetta kom fram á fundi ráðsins 11. desember, þegar fulltrúar Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi og Meistarafélags byggingarmanna á Suðurnesjum sátu fundinn. Farið var yfir nýjustu tölur um atvinnuleysi og rekstrarumhverfi fyrirtækja, bæði á Suðurnesjum og á landsvísu.
Ráðið bendir á að opinberir aðilar beri ábyrgð á að skapa aðstæður til vaxtar í atvinnulífi. Sveitarfélög þurfi að huga að skipulagsmálum, innviðum og hagrænum hvötum í nærumhverfi, á meðan ríkisvaldið þurfi að tryggja uppbyggingu almennra innviða, réttlátt laga- og reglugerðarumhverfi og hagstætt efnahagsumhverfi.
Í því samhengi vísar ráðið til atvinnustefnu Reykjanesbæjar sem bæjarstjórn samþykkti í ágúst og leggur áherslu á að tryggja áfram góð skilyrði til atvinnuuppbyggingar. Jafnframt hvetur ráðið ríkisvaldið til að tryggja efnahagslegan stöðugleika til að snúa þróuninni í rétta átt. Samþykkt var að atvinnu- og hafnarráð fundi reglulega með fulltrúum atvinnulífsins framvegis.






