Heklan
Heklan

Fréttir

Uppbygging Iceland World Class Wellness Hotel við Fitjar fer í kynningu
Þriðjudagur 30. desember 2025 kl. 08:59

Uppbygging Iceland World Class Wellness Hotel við Fitjar fer í kynningu

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur veitt heimild til að auglýsa vinnslutillögu að breytingu á deiliskipulagi Fitja og vinna jafnframt tillögu að breytingu á aðalskipulagi fyrir miðsvæði M4. Tillagan var lögð fram af Laugar ehf. og byggir á uppdrætti Gláma/Kím, dagsettum 30. nóvember 2025.

Breytingin nær til atvinnulóðar við austurenda Fitjabakka og felur meðal annars í sér stækkun lóðarinnar, breytt aðkomufyrirkomulag og auknar byggingarheimildir. Samkvæmt vinnslutillögunni verða skilgreindir tveir byggingarreitir á lóðinni.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Þar yrði heimilt að reisa heilsuræktarstöð með veitingasal og hóteli, ásamt heimild fyrir baðlaug eða baðlóni utanhúss. Einnig er gert ráð fyrir aukinni hæðarheimild, allt að 2–6 hæðum og heildarhæð allt að 25 metrum yfir gólfkóta jarðhæðar.

Þá yrði heimilt að byggja bílageymslu á tveimur hæðum til að mæta bílastæðaþörf, með heimild fyrir allt að 335 bílastæðum.

Heildarbyggingarmagn ofanjarðar er sett fram sem allt að 26.300 fermetrar og samtals 32.800 fermetrar með neðanjarðarrýmum.

Meðal kynningargagna hjá umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar er hugmyndakynning að „Iceland World Class Wellness Hotel“, þar sem mannvirkinu er lýst sem heilsu- og upplifunarhóteli með heilsulind og baðlón í lykilhlutverki.

Hugmyndin sýnir langt, fjölhæða hótel sem liggur meðfram lóðinni og myndar skjól fyrir útisvæði, með móttöku- og setusvæðum, þjónusturýmum og veitingasal á jarðhæð og tengingu út á lón- og verandarsvæði. Þar er meðal annars gert ráð fyrir fullorðinslóni og fjölskyldulóni, auk slökunar- og meðferðarrýma.

Áréttað er í gögnunum að um hugmyndakynningu sé að ræða en ekki endanlega, samþykkta hönnun.