Fréttir

Skjöldur og þorpið
Þriðjudagur 30. desember 2025 kl. 10:20

Skjöldur og þorpið

Minningarstund um brunann í Skildi í Keflavíkurkirkju. 90 ár frá hræðilegum bruna í litlu samfélagi.

Árið er 1935. 1073 íbúar mynda Keflavík, þorpið við sjávarsíðuna hvar Skjöldur er eina samkomuhúsið. Ætíð er mikið fjölmenni í húsinu sem hýsir fjölbreytt félagsstarf … því bæjarbúar treysta á sjálfa sig hvað skemmtun varðar. Skjöldur er myndugt hús. Bárujárnsklætt með háalofti og leiksviði. Undir sviði er kjallari sem geymir dyr er liggja út. Einar þröngar útidyr opnast inn í salinn sem á eftir að reynast örlagaríkt. Skjöldur stendur við Templarastíg. Hinum megin við götuna er Guðshúsið. Frá 1932 hefur UMFK haft þann sið að halda jólatrésskemmtanir í Skildi fyrir börnin í þorpinu. Í ár hefur sýslumaður sett samkomubann sökum vanbúnaðar en lætur undan þrýstingi og veitir leyfi fyrir skemmtuninni í ár.

Kór Keflavíkurkirkju söng á minningarstundinni og Dagný Maggýjar og Sr. Erla Guðmundsdóttir fluttu ávörp.  VF/pket.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Voðaatburður og viðbrögð

Það er mánudagur 30. desember 1935. Hátíð er að hefjast. Prúðbúin börn streyma að Skildi, 180 talsins 6-14 ára. Tuttugu fullorðnir eru í húsinu. Veðrið er kyrrt. Snjóföl liggur yfir. Hiti rétt undir frostmarki. Eftirvænting í lofti. Salurinn fallega skreyttur. Eldri konur í peysufötum í óðaönn að undirbúa veitingar, kökur og heitt súkkulaði. Í miðju salar stendur stórt tré, skreytt lifandi ljósum. Börnin dansa í kringum tréð og syngja Göngum við í kringum einiberjarunn þegar skyndilega kviknar í trénu. Stóreyg horfa börnin á þegar eldur gleypir sig í tréð, á svipstundu læsir sig í loftið og niður eftir veggjum.

Hitinn magnast, í dauðans ofboði þyrpast allir að útgöngudyrunum sem opnast inn og lokast fljótt vegna atgangs. Erfitt er að komast út. Einhverjir komast út um kjallaradyr. Í svartamyrkri og reyk er börnum nánast kastað út um gluggana, sum í ljósum logum. Samkomuhúsið brennur til kaldra kola á örfáum mínútum.

Foreldrar koma hlaupandi úr öllum áttum, kvíði og ótti lýsa sér í orðum og látbragði. Allir spyrja um börnin sín. Sum finna, önnur ekki en halda leit áfram. Guð er ákallaður út á götu. Guð minn, sendu mér drengina mína. Vörubílum er ekið upp á mela fyrir ofan þorpið, lýsa upp í heiði í von um að finna einhver hrædd börn sem þangað hafa leitað til að forðast eldinn.

Helgi, eini læknirinn í þorpinu, er genginn til hvílu. Áður en varir er vinnustofan full af fólki. Helgi fær síðar vitnisburð um að hann vinnur kraftaverk í gegnum kvalarvein.

Næstu dagar eru hryllingur í ásjónu. Á gamlársdag er grafið í rústum. Af og til sést hvítur dúkur breiddur yfir. Líkamsleifar finnast. Ekki er hægt að bera kennsl á öll líkin. Þrjú börn eru lögð saman í kistu.

Aldrei hafa fleiri, svo vitað sé, látið lífið í bruna á Íslandi frá því á Sturlungaöld. Tíu deyja. Tugir slasast. Mörg bera ör til æviloka. Erfitt er að segja um gróanda andlegu sáranna. Þorpið lamast, félagslífið hverfur. Það líður langur tími þar til kveikt er á kvertum í Keflavík.

Fjölmenni var á minningarstundinni í Keflavíkurkirkju. Margir fylgdu Dagnýju ganga með blomsveiginn að minnismerkinu sem er staðsett á reitnum þar sem Skjöldur stóð.

Viðbrögð

Sálræn skyndihjálp er hugtak sem þorpið þekkir ekki … en á sannarlega sér stað í kvöld. Þorpsbúar þyrpast út á Templarastíg, styðja strax við, reyna að koma öðrum í jafnvægi, setja upp sjúkrastofur í hverju húsi, gefa frá sér samtal. Veita líkamlega og andlega aðhlynningu til einstaklinga sem þjást. Langt í frá sé þetta skipulögð aðgerðaráætlun öllu heldur skjót ósjálfráð viðbrögð. Hver sem hefur burði til, gengur í hlutverk, gefur nálægð, hlýju, umhyggju og virkjar sinn mannlega hæfileika, að hlusta. Þorpið bregst við. Kefvíkingar kveðja árið í kvölum, taka á móti nýju með komandi kveðjustundum. Í hverju húsi er harmur yfir örlögum. Líðan og lyktin er óbærileg. Kærleikurinn svífur yfir í verkum, orðum, augnráði og umhyggju. Heimabúið er borið á milli húsa, saumað, prjónað, þau sem eru aflögufær leggja til aur.

Tilfinningar hellast yfir.

Léttir: Mitt barn skilaði sér heim.

Samviskubiti að upplifa létti.

Ásökun: Mín mesta eftirsjá er að flytja með fjölskylduna til Keflavíkur, nú er dóttir mín dáin.

Reiði: Af hverju var undanþágu veitt fyrir skemmtun.

Skömm: Ég sendi 6 ára son minn einan á skemmtunina.

Sorg: Þessi nístandi sársauki. Fljótt er sammælst í þögn; Segjum sem minnst, hlífum börnum, leggjum hulu yfir og höldum áfram.

Kirkjan og presturinn

Kirkjan stendur opin, borin eru inn þau látnu. Kirkjan tekur á móti þeim sem þar leita athvarfs og veitir birtu sem er ein þess að láta sorgarmyrkur dvína. Síðar sammælist fólk að trúin eflist í brjósti fólks í samfélaginu eftir 30.12.1935.

Þjónusta sr. Eiríks Brynjólfssonar er einkennandi fyrir þetta tímabil í sögu þjóðar þar sem presturinn er allt í öllu. Hann sér um allar kirkjulegar athafnir. Sálusorgari og leiðtogi samfélags. Í hreppsnefnd hefur hann áhrif á úrlausnir veraldlegra mála, mótandi áhrif á unga fólkið með kennslustörfum sínum. Á sama tíma er hann bóndi, vinnur öll venjuleg bústörf. Hann auðgar menningarlíf, æfir kóra og heldur söngskemmtanir. Presturinn er fremstur meðal jafningja, lifir og starfar meðal sóknarbarna sinna á mörgum sviðum mannlífs. Eiríkur setur markið hátt, stofnar skóla í þrem byggðarlögum. Hann trúir því að menntun sé menning. Aðalsmerki mannssálar er að vaxa, að víðsýni og þekkingu. Eiríkur hlustar eftir þörfum, sérlega umhugað um börn og ungmenni. Kann samtalið, hverjar eru vonir fólks og draumar, miðlar þeim af bjartsýni sinni og baráttugleði. Hefur ætíð glöggt auga fyrir líðan sóknarbarna. Brýnir fyrir þeim að aldrei megi gefast upp fyrr en að fullreyndu. Sr. Eiríkur er síðastur út úr samkomuhúsi með logandi hár og hendur. Mörg vinna frækilegt björgunarstarf. Varna því að ekki fari enn verr. Allra mest sr. Eiríkur. Sigurgeir biskup segir: sr. Eiríkur ber heiðursmerki á höndum sér. Eftir brunann liggur Eiríkur lengi á sjúkrahúsi í Reykjavík. Á meðan annast sr. Friðrik, leiðtogi KFUM, útfarir þeirra sem deyja. Fólk segir Eirík ásaka sjálfan sig alla tíð, nefnir aldrei brunann við nokkurn. Hann flytur og starfar til æviloka í Lútherskri kirkju Vancuver í Kanada. Börn hans hafa ekki hugmynd um hvernig hann hlýtur þau ör sem hann ber ekki fyrr en eftir andlát Eiríks. Þau koma til Íslands og heyra söguna um Skjöld.

Títt er spurt: Hvernig hefði samfélagið þroskast eftir voðaslys með hörmulegum afleiðingum ef sálusorgar og leiðtogi samfélagsins hefði notið við. Hefði sagan verið sögð með öðrum hætti.

Sagan í samfélaginu í dag

Bruninn er ávallt ávarpaður með greini, stundum skrifaður með stórum staf. Bruninn í Skildi er titill bókar sem kom út að 70 árum liðnum, heimildarvinnan og skrif unnin af nærgætni og virðingu af Dagnýju Maggýjar. Á fundi Lionsklúbbs Keflavíkur les höfundur úr nýútkominni bók er öldungur stendur upp með orðum: Það er ekki tímabært að tala um þennan atburð. Sjálfur missti hann bróður og ömmu. Af sárindum yfir efni jólafundar segir hann sig í kjölfarið úr klúbbnum sem hann stofnaði og tilheyrði í meira en hálfa öld. Þetta er ein birtingarmynd sem hefur sveipað sig um söguna í 90 ár.

Þetta er saga samfélags en við skulum þó hafa hljótt um hana. Meðvitað, síðustu ár eru leik- og grunnskólabörn frædd um brunann þegar gengið er að látlausu minnismerki sem stendur á grunni Skjaldar. Skilningur samfélagsins í dag er mikilvægi þess að hverja sögu verði að segja, hvort sem er saga hamingju eða saga harma. Aðstandendur þeirra er létust og lifðu hafa margir hverjir enn hljótt um Brunann í Skildi.

Erla Guðmundsdóttir, sóknarprestur í Keflavíkurkirkju, flutti þennan texta í minningarstund í kirkjunni í lok nóvember.