Fréttir

„Forsendur eru ekki lengur fyrir hendi“
Þriðjudagur 30. desember 2025 kl. 07:54

„Forsendur eru ekki lengur fyrir hendi“

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hafnaði því að samþykkja fyrirliggjandi viðauka við þjónustusamning um samræmda móttöku flóttafólks og frestaði afgreiðslu málsins samhljóða, 11–0. Þetta var niðurstaðan þegar tekið var fyrir mál 2 úr fundargerð velferðarráðs frá 11. desember á fundi bæjarstjórnar.

Í bókun allra bæjarfulltrúa, sem Margrét Þórarinsdóttir lagði fram, kemur fram að bæjarstjórn geti ekki samþykkt viðaukann þar sem um sé að ræða framlengingu og efnisbreytingar á samningi sem samþykktur var 1. júlí 2025, án þess að forsendur hans liggi lengur fyrir með fullnægjandi hætti. Jafnframt er talið að gildistími samningsins sé of langur og að hann eigi að vera að hámarki til 30. júní 2026, enda ríki mikil óvissa um framkvæmd málaflokksins í tengslum við brottfararstöð sem á að taka til starfa 12. júní 2026.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Í bókuninni er einnig bent á að Reykjanesbær sé með stærsta karlaúrræði Vinnumálastofnunar á landinu og að samsetning móttöku sé ólík öðrum sveitarfélögum. Tölur sem lagðar voru fram sýna að í Reykjanesbæ séu 252 í úrræðum, þar af 31 prósent fjölskyldur og 69 prósent stakir karlar, á meðan hlutfall fjölskyldna sé mun hærra í Hafnarfirði og Kópavogi.

Bæjarstjórn gagnrýnir samráðsleysi stjórnvalda í málaflokknum og krefst samtals við ríkið áður en hægt verði að samþykkja viðauka III.