ÍAV gerir brimvarnargarð við Njarðvíkurhöfn
Atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að gengið verði til samninga við Íslenska aðalverktaka hf. um byggingu 470 metra brimvarnargarðs sunnan við Njarðvíkurhöfn.
Verkið var boðið út í kjölfar ákvörðunar ráðsins á 301. fundi þess 22. október og rann tilboðsfrestur út 2. desember. Alls bárust níu tilboð, þar af fjögur undir kostnaðaráætlun. Vegagerðin, sem er ráðgjafi Reykjaneshafnar við framkvæmdina, lagði til að samið yrði við Íslenska aðalverktaka hf. sem lægstbjóðanda.
Ráðið samþykkti tillögu Vegagerðarinnar og fól Halldóri K. Hermannssyni, sviðsstjóra atvinnu- og hafnarsviðs, að fylgja málinu eftir.






