Íþróttir

Dreymir um að hlaupa Klemmann eftir göngustíg allan hringinn
Miðvikudagur 31. desember 2025 kl. 13:58

Dreymir um að hlaupa Klemmann eftir göngustíg allan hringinn

Klemenz Sæmundsson hljóp „Klemmann“ í þrítugasta sinn í morgun. Á áttunda tug einstaklinga tók þátt í hlaupinu en í boði var að hlaupa, ganga eða hjóla. Klemminn er um 26 kílómetra langur hringur frá Keflavík um Sandgerði og Garð og aftur til Keflavíkur. Þátttakan í dag var 85 manns, sem er met.

Í Klemmanum er engin keppni og allir fara á sínum forsendum og hraða. Klemenz sagðist hafa hlaupið hringinn í ár á tveimur klukkustundum og þrettán mínútum. Í samanburði við síðustu þrjátíu ár segir Klemenz að það sé farið að hægja á honum með árunum.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Töluverð umferð var um hlaupaleiðina í morgun. Umferðin hefur aukist mikið á síðustu árum en þegar Klemminn fór fyrst fram fyrir 30 árum var varla bíll á ferðinni.

Göngustígur var lagður milli Sandgerðis og Garðs fyrir nokkrum árum og hlaupahópurinn notar hann óspart í þessu gamlárshlaupi sínu. Klemenz á sér þann draum að geta hlaupið eftir göngustíg allan hringinn. Byrjað er á göngustígnum milli Keflavíkur og Garðs. Reykjanesbær hefur klárað stíginn frá gatnamótum Vesturbrautar og Hringbrautar og alla leið að Hólmbergskirkjugarði á bæjarmörkum Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar. Þar er allt stopp og samkvæmt heimildum stranda framkvæmdir við lagningu göngustígs frá Garði og að Hólmbergskirkjugarði á landeigendum. Klemenz vonast til þess að stígurinn verði lagður sem fyrst, enda eru stígar sem þessir góðir til heilsueflingar og útivistar. Þá eru þeir mikið öryggisatriði fyrir gangandi og hjólandi umferð. Mikill hraði var á vegunum út í Sandgerði og Garð og hlaupurum var því miður ekki alltaf sýnd tillitsemi.

Safnað fyrir Blóð- og krabbameinslækningadeild 11EG

Klemminn hefur aldrei verið styrktarhlaup og verður það áfram, nema á stærri tímamótum eins og nú. Í tilefni 30 ára afmælisins stendur til að styrkja Blóð- og krabbameinslækningadeild 11EG, sem er að safna fyrir lyfjadælum og töskum – búnaði sem á að auðvelda sjúklingum að vera heima.

Hægt er að leggja inn á reikning í Landsbankanum og styrkja verkefnið: 0123-15-123439 Kt.: 040963-2359

Hér að neðan er myndasafn frá hlaupinu í morgun og hópmynd sem tekin var í Heiðarskóla þar sem 75 einstaklingar stilltu sér upp til myndatöku.


Klemminn 30 ára 2025