Gleðilegt nýtt Víkurfréttaár!
Víkurfréttir senda lesendum sínum bestu óskir um gleðilegt nýtt ár.
Það voru talsverðar breytingar hjá okkur á nýliðnu ári, þar sem blaðið fagnaði 45 ára útgáfuafmæli. Víkurfréttir komu fyrst út í ágúst 1980.
Á árinu breyttum við útgáfutíðni blaðsins. Það kemur nú út hálfsmánaðarlega á prenti en ekki vikulega eins og áður. Þetta er gert til að bregðast við breytingum á fjölmiðlamarkaði og því rekstrarumhverfi sem fjölmiðlum er skapað í samkeppni við t.d. samfélagsmiðla um auglýsingar. Auglýsingar eru forsenda útgáfu Víkurfrétta, sem hafa verið fríblað frá fyrsta degi.
Á sama tíma höfum við sett meiri kraft í vefútgáfuna, vf.is. Það er gaman að segja frá því að lestur á vefnum okkar hefur aldrei verið meiri og rafræna útgáfu Víkurfrétta lesa þúsundir í hverri viku. Það er ekki óalgengt að hvert tölublað sé sótt um 15.000 sinnum á vf.is. Þá er 3000 eintökum dreift á um 30 dreifingarstaði á Suðurnesjum og í Salalaug í Kópavogi. Þangað sækja Suðurnesjamenn á höfuðborgarsvæðinu sér eintak en blaðið er líka orðið vinsælt hjá heimafólki.
Á nýliðnu ári fluttum við einnig skrifstofur blaðsins úr Krossmóa í eigið húsnæði að Hólmbergsbraut 13. Þar er ritstjórn blaðsins og aðstaða til að taka upp í myndveri bæði sjónvarpsviðtöl og hlaðvörp.
Við hjá Víkurfréttum erum full tilhlökkunar fyrir nýju Víkurfréttaári og hvetjum ykkur lesendur til að standa með okkur vaktina. Það má senda okkur ábendingar um áhugavert efni á póstfangið [email protected]. Þá er fréttavakt í síma 898 2222 og þangað má hringja með ábendingar ef eitthvað fréttnæmt er að gerast.
Gleðilegt nýtt Víkurfréttaár!








