Bygg
Bygg

Íþróttir

Íþróttafólk Grindavíkur 2024 og meistaraflokkarnir snúa heim
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 2. maí 2025 kl. 07:38

Íþróttafólk Grindavíkur 2024 og meistaraflokkarnir snúa heim

Grindvíkingar fjölmenntu í íþróttamiðstöð Grindavíkur í gær en þar fóru fram afhendingar á íþróttaviðurkenningnum og svo undirritaði Grindavíkurbær samning við forsvarsfólk UMFG og knattspyrnu- og körfuknattleiksdeilda UMFG.

Það voru mæðginin Steinunn Dagný Ingvarsdóttir og Alexander Veigar Þorvaldsson sem voru útnefnd íþróttakona og -maður Grindavíkur árið 2024. Meistaraflokkur karla í körfuknattleik var útnefndur lið ársins og þjálfari liðsins, Jóhann Þór Ólafsson, var útnefndur þjálfari ársins.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Steinunn Dagný Ingvarsdóttir, íþróttakona Grindavíkur

Steinunn átti frábært keppnisár bæði innanlands og erlendis. Hún keppti með íslenska landsliðinu á Norðurlanda- og Evrópumeistaramótum þar sem kvennaliðið náði sínum besta árangri í áratugi. Hún varð Íslandsmeistari með Pílufélagi Grindavíkur og einnig Íslandsmeistari í tvímenningi. Steinunn vann til fjölmargra verðlauna á öðrum mótum og var önnur stigahæsta konan á stigalista ÍPS árið 2024.

Alexander Veigar Þorvaldsson, íþróttakarl Grindavíkur


Alexander hélt áfram að sanna sig sem einn fremsti pílukastari landsins. Hann var stigahæsti karlinn á stigalista ÍPS 2024 og Íslandsmeistari með Pílufélagi Grindavíkur. Hann keppti með íslenska landsliðinu á alþjóðlegum vettvangi þar sem liðið náði sínum besta árangri í áratugi. Keppnisár Alexanders var afar glæsilegt bæði innanlands og utan.

Meistaraflokkur karla í körfuknattleik, íþróttalið Grindavíkur


Lið meistaraflokks karla í körfuknattleik vakti mikla athygli á árinu 2024 og komst í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn, þar sem liðið laut í lægra haldi gegn Val. Liðið hefur á undanförnum árum eflt stöðu sína í fremstu röð íslensks körfubolta og sýnt mikla samstöðu, leikgleði og baráttu.

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur


Jóhann Þór tók við meistaraflokki karla á ný árið 2022, eftir að hafa áður stýrt liðinu á árunum 2015–2019. Undir hans stjórn hefur liðið sýnt stöðugan árangur og baráttuanda, og árið 2024 náði hann með liðinu öllum leið í úrslit Íslandsmótsins. Jóhann Þór hefur unnið ötullega að uppbyggingu og árangri liðsins, sem skilaði sér með frábæru keppnisári.

Meistaraflokkarnir heim

Samstarfssamningurinn milli Grindavíkurbæjar og UMFG felur m.a. í sér styrk að upphæð 38 milljónir króna og afnot UMFG af íþróttamannvirkjum bæjarins á árinu 2025.

Í yfirlýsingunni, sem lesa má hér að neðan, kemur m.a. fram að meistaraflokkur karla í knattspyrnu mun leika heimaleiki sína í Grindavík í sumar og að körfuknattleiksdeildin stefni að því að leika hluta sinna leikja í bænum næsta vetur.

„Heimkoma íþróttaliðanna er stórt og táknrænt skref á heimleið okkar allra,“ segir í yfirlýsingunni, sem fjallar jafnframt um samstöðu samfélagsins og þann mikilvæga stuðning sem grindvísk íþróttafólk hefur notið um land allt á erfiðum tímum. Grindavíkurbær mun leggja áherslu á viðgerðir og endurbætur á íþróttamannvirkjum bæjarins og tryggja öruggt, metnaðarfullt og aðlaðandi umhverfi fyrir keppendur, áhorfendur og sjálfboðaliða.

Sameiginleg yfirlýsing Ungmennafélags Grindavíkur og Grindavíkurbæjar um heimkomu meistaraflokka UMFG í körfubolta og fótbolta.

Skýr og einlægur vilji okkar Grindvíkinga er að íþróttaliðin okkar leiki heimaleiki sína í Grindavík á ný. Knattspyrnudeild UMFG mun leika heimaleiki sína í Grindavík í sumar og körfuknattleiksdeildin mun a.m.k. leika hluta af sínum heimaleikjum í Grindavík næsta vetur.

Heimkoma íþróttaliðanna er stórt og táknrænt skref á heimleið okkar allra. Heimavöllurinn okkar verður áfram tákn samkenndar og elju samfélagsins. Það er öllum ljóst að það verður stór stund þegar hjartsláttur samfélagsins slær í takt við trommurnar á heimavelli í Grindavík. Það liggur í loftinu að við eigum eftir að vinna stóra sigra heima í Grindavík og þá er stemmingin engri annarri lík.

Við viljum færa innilegar þakkir til þeirra fjölmörgu íþróttafélaga, sveitarfélaga, þjálfara og sjálfboðaliða um land allt sem hafa opnað faðminn fyrir grindvísku íþróttafólki á öllum aldri og veitt skjól á erfiðum tímum. Ykkar hlýja móttaka og stuðningur skiptu sköpum, ekki aðeins fyrir æfingar og keppnir, heldur líka fyrir þau ómetanlegu félagslegu tengsl sem íþróttir skapa og styrkja. Þið hafið átt stóran þátt í að gera þessa heimkomu að veruleika.

Grindavíkurbær mun á næstu misserum leggja áherslu á viðgerðir og endurbætur á íþróttamannvirkjum bæjarins. Stefnt er að því að skapa öruggt, aðlaðandi og metnaðarfullt umhverfi fyrir keppendur, áhorfendur og sjálfboðaliða.

„Við ítrekum að öryggi allra sem sækja íþróttaviðburði í Grindavík verður ætíð í forgangi,“ eins og segir á heimasíðu Grindavíkurbæjar.

Áfram Grindavík!

Grindavík, 1. maí 2025 

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar 

Klara Bjarnadóttir, formaður Ungmennafélags Grindavíkur 

Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar UMFG 

Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar UMFG