Karlakór Kef vortónl
Karlakór Kef vortónl

Íþróttir

Keflvíkingar ætla að læra af reynslu síðasta tímabils
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 2. maí 2025 kl. 07:10

Keflvíkingar ætla að læra af reynslu síðasta tímabils

Keflvíkingar voru einum leik frá því að komast aftur á meðal bestu liða landsins í fyrra en eftir að hafa endað einu stigi á eftir Eyjamönnum sem fóru beint upp, fóru þeir í umspil þar sem þeir tóku ÍR fyrst í tveimur leikjum en töpuðu úrslitaleiknum gegn Aftureldingu. Mikil vonbrigði en Keflvíkingar ætla að læra af reynslunni og ekkert annað kemur til greina en fara upp og helst með því að vinna deildina.

Keflvíkingurinn Haraldur Freyr Guðmundsson er að byrja sitt annað heila tímabil en hann tók við liðinu þegar fall úr Bestu deildinni blasti við árið 2023.

„Þjálfun blundaði alltaf í mér en leikmannaferlinum lauk árið 2016. Ég kom inn í þjálfarateymi 2. flokks karla hjá Keflavík árið 2017 og tók svo við Reynismönnum í Sandgerði 2018 og var þar í nokkur ár. Ég var aðstoðarmaður meistaraflokks karla hjá Keflavík árið 2022, tók við stjórnartaumunum árið 2023 þegar fall blasti við og ætlaði mér að koma liðinu beint upp í fyrra og viðurkenni fúslega að það voru mikil vonbrigði að ná því markmiði ekki. Ég er af gamla skólanum, finnst eðlilegt að tvö efstu liðin fari upp en skil að fólk hafi gaman af svona úrslitakeppni. Við vorum ekki nema stigi frá Eyjamönnum og þurftum því að fara í umspilið en töpuðum úrslitaleiknum á Laugardagsvelli. Tímabilið var skrýtið, við seldum Stefán Ljubicic fyrir tímabilið og fengum ekki framherja í staðinn. Við byrjuðum mjög vel í bikarnum, slógum út bæði Breiðablik og ÍA en töpuðum svo fyrstu tveimur leikjunum í deildinni. Kannski að við höfum farið of hátt eftir bikarleikina en svo fengum við Króata í sumarglugganum og þá náðum við okkur mjög vel á strik, unnum m.a. sjö leiki í röð.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Keflvíkingar voru einum leik frá því að komast upp í Bestu deildina . VF/JPK

Læra af reynslunni

Keflvíkingar fengu Stefán til baka frá Svíþjóð en hann meiddist á dögunum og verður frá fyrstu leikina á tímabilinu en Keflavík ætlar að læra af reynslu síðasta tímabils.

„Það var mikill munur á leik okkar í fyrra þegar við fengum króatíska framherjann og þegar Stefán meiddist þá ákváðum við strax að við myndum ekki láta mistökin frá því í fyrra endurtaka sig og sóttum annan króatískan framherja. Þetta er 29 ára reynslumikill leikmaður og ég bind miklar vonir við hann. Hann er bara nýlega kominn og á eftir að komast betur inn í hlutina með okkur en mér líst vel á hann.

Undirbúningstímabilið gekk vel, við vorum búnir að vera spila vel og Stefán var á eldi svo það var auðvitað vont að missa hann í meiðsli og það verður gott að fá hann til baka. Við mætum bjartsýnir til leiks og ætlum okkur að vinna deildina og fara beint upp. Í fljótu bragði held ég að Fylkir og HK verði að berjast við okkur og svo eru alltaf lið sem koma á óvart, það kæmi mér ekki á óvart ef grannar okkar úr Njarðvík verði eitt þeirra liða. Við einbeitum okkur að okkar leik og mætum grimmir til leiks,“ sagði Haraldur.

Stuðningsmenn Suðurnesjaliðanna bíða spenntir eftir  nýrri leiktíð. Öll liðin eru í næst efstu deildinni, Lengjudeildinni. Það hefði einhvern tíma þótt ósættanlegt að ekkert lið frá Suðurnesjum sé í efstu deild knattspyrnunnar á Íslandi. Fyrsta umferðin hefst í lok vikunnar. Keflvíkingar heimsækja Fjölni og fer leikurinn fram á föstudagskvöldið kl. 18:30.