Keflavíkurkonur ætla sér beint upp aftur með KR-ing í brúnni
Keflavík er stórt félag í knattspyrnuheiminum á Íslandi og metnaðurinn er alltaf í þá veru að bæði lið séu að keppa á meðal hinna bestu. Kvennalið Keflvíkinga féll úr Bestu deildinni á síðasta tímabili og markmiðið fyrir sumarið er mjög einfalt, að fara beint upp aftur. Guðrún Jóna Kristjánsdóttir sem er fædd og uppalinn KR-ingur, hafði verið aðstoðarþjálfari en tók við liðinu í lok síðasta tímabils og er spennt fyrir að byggja liðið upp.
„Ég spilaði allan minn feril með KR, er leikjahæsti kvennaleikmaður í sögu félagsins og lék auk þess 25 landsleiki. Þjálfunin hófst hjá KR þegar ég var um tvítugt, fyrst í yngri flokkum en tók svo meistaraflokk hjá sameinuðu liði Aftureldingar og Fjölnis árið 2009, tók KR árið eftir og hef svo þjálfað nokkur önnur lið síðan þá. Ég hef verið að þjálfa allar götur meira og minna síðan, bæði yngri flokka og meistaraflokka, áður en ég kom til Keflavíkur hafði ég verið hjá Haukum í fimm ár. Ég byrjaði sem aðstoðarþjálfari hjá Keflavík en tók svo við í fyrra og fékk traust stjórnar að stýra liðinu áfram og markmið okkar er mjög einfalt, við ætlum okkur beint upp aftur.
Ég var mjög ánægð með að allir keflvísku leikmennirnir vildu halda áfram en flestir leikmennirnir eru uppaldir Keflvíkingar en svo verðum við með fjóra útlendinga, vorum með sjö í fyrra. Undirbúningstímabilið gekk vel, góðir sigrar en töp inn á milli eins og gengur og gerist. Þú vilt prófa þig áfram á undirbúningstímabilinu og úrslitin eru ekki aðalatriðið. Við vorum í A-deild í Lengjubikarnum, spiluðum fullt af hörkuleikjum svo við erum brattar fyrir sumarið. Það voru auðvitað vonbrigði að tapa bikarleiknum gegn nágrönnunum en nú setjum við bara allan fókus á deildina og eins og ég segi, ætlum okkur beint upp í Bestu deildina.“
Hvaða lið verða í baráttunni?
„Mig grunar að þetta verði gríðarlega jöfn deild, það eru held ég mörg lið sem munu blanda sér í baráttuna, tvö lið fara upp og við ætlum okkur klárlega að vera annað þeirra. Við vorum að glíma við smá meiðsli á undirbúningstímabilinu en þá gefast tækifæri fyrir aðra leikmenn að stíga upp. Þegar við verðum með allan hópinn heilan þá verðum við sterkar, ég er spennt fyrir sumrinu,“ sagði Guðrún Jóna.
