Njarðvík ætlar að bæta árangurinn frá því í fyrra
Eyjapeyinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson er að hefja sitt annað heila tímabil sem þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í knattspyrnu en hann tók við um mitt sumar 2023 þegar liðið var í fallsæti, og náði að stýra liðinu frá falli þótt tæpt hafi það staðið. Liðið bætti sig mjög í fyrra, var hársbreidd frá því að komast í umspilið um að komast í Bestu deildina og á að byggja ofan á þann árangur og reyna að gera betur. Ef það tekst, er ljóst að Njarðvík mun berjast um að komast á meðal þeirra bestu í knattspyrnu, eitthvað sem þótti fjarlægur draumur fyrir ekki svo löngu síðan.
Gunnar er ánægður að hafa svarað kalli Njarðvíkinga um mitt sumar 2023 en þá bjó hann ennþá í Eyjum.
„Ég hef grínast með þetta við Rabba [Rafn Markús Vilbergsson, yfirmaður knattspyrnumála] að ef við konan hefðum ekki verið búin að borða góða steik og renna henni niður með góðri rauðvín þegar símtalið kom, þá er ég ekki viss að ég hefði sagt já. Ég var bara strax til í þetta verkefni sem virtist vera „mission impossible“ en liðið náði sér á strik og við rétt náðum að bjarga okkur frá falli, með jafn mörg stig og Selfoss en einu marki betri markatölu. Tímabilið í fyrra gekk síðan mjög vel og var mikil bæting á leik okkar og eðlilega ætlum við að bæta okkur enn frekar í sumar.
Þjálfaraferill minn er kannski nokkuð sérstakur en ég sá aldrei fyrir mér að vilja leggja þjálfun fyrir mig. Ég átti farsælan tólf ára atvinnumannaferil og setti síðan skóna upp í hillu eftir 2018 tímabilið. Þá átti knattspyrnukaflanum að vera lokið og eitthvað nýtt átti að taka við. Ég bjó í Eyjum á þessum tíma og sumarið 2020 var ég beðinn um að hjálpa til með KFS sem er lið í Eyjum og þá kviknaði á einhverju hjá mér. Ég var með liðið tvö sumur, fór að afla mér menntunar samhliða og er að klára UEFA-pro í haust. Ég tók við Vestra á Ísafirði fimm mínútum fyrir mót 2022, þegar þáverandi þjálfari fór í annað verkefni. Þetta voru skemmtilegir mánuðir fyrir vestan en á þessum tíma vorum við fjölskyldan farin að spá í að flytja upp á land og búum í dag á Akranesi. Ég var ekki með neitt lið fyrir tímabilið 2023 en þá kom kallið frá Njarðvík.“
Hársbreidd frá umspili
„Ég vil meina að standið á okkur sé mjög gott, við höfum æft vel, fórum í frábæra æfingaferð til Kanarí og höfum verið að spila vel á undirbúningstímabilinu. Þeir leikmenn sem við fengum fyrir tímabilið smellpassa inn í hvernig við viljum spila og ég get ekki annað en verið bjartsýnn fyrir tímabilið. Þar sem ég er keppnismaður og vil helst alltaf gera betur í dag en í gær, væri óeðlilegt annað en ætla að bæta árangurinn síðan í fyrra. Ef það tekst þá munum við slást við önnur lið um að komast í deild hinna bestu en fyrirfram held ég að Keflavík og Fylkir muni berjast um efsta sætið sem gefur beint sæti í Bestu deildinni. Við vorum hársbreidd frá því að komast í umspilið í fyrra, sigur í lokaleiknum gegn Grindavík hefði komið okkur þangað svo eðlilega setjum við markið hærra í sumar,“ segir Gunnar Heiðar.
