Bygg
Bygg

Íþróttir

Hvað gerir sameinað lið  Njarðvíkur og Grindavíkur?
Gylfi Tryggvason er í sínu fyrsta aðalþjálfarastarfi.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 2. maí 2025 kl. 07:05

Hvað gerir sameinað lið Njarðvíkur og Grindavíkur?

Þegar knattspyrnudeild UMFG í Grindavík kannaði hug Njarðvíkinga á að sameina kvennalið félaganna var því strax vel tekið. Grindavíkurkonur voru á hrakhólum má segja og vilji var innan vébanda Njarðvíkinga að efla kvennaknattspyrnu innan félagsins. Grindavík hafði leikið í Lengjudeildinni undanfarin ár en Njarðvík ekki verið með lið í deildarkeppni svo þetta smellpassaði. Hugmyndin fæddist síðasta haust og fljótlega var ráðinn þjálfari, Gylfi Tryggvason. Tímabilið fer vel af stað.

Gylfi sem er uppalinn Fylkismaður og líst vel á framhaldið.

„Ég er auðvitað hæstánægður með byrjunina hjá okkur, við unnum flottan sigur á Skagakonum í fyrstu umferð og áttum frábæra endurkomu gegn grönnum okkar í Keflavík á mánudagskvöldið. Við lentum 2-0 undir eftir nokkrar mínútur en sýndum frábæran karakter, komum til baka og unnum 2-3. Nú bíðum við bara spenntar eftir að deildin hefjist og erum tilbúin fyrir baráttuna sem er framundan. Undirbúningstímabilið gekk vel, við fórum í frábæra æfingaferð til Spánar á vegum Njóttu ferða og höfum svo æft bæði í Nettóhöllinni í Reykjanesbæ og gervigrasvellinum. Það gekk ágætlega en það vantar nauðsynlega fleiri gervigrasvelli á Suðurnesin. Það eru einhver átta meistaraflokkslið plús yngri flokkar bæði Keflavíkur og Njarðvíkur sem æfa á tveimur gervigrasvöllum yfir vetrartímann. Það segir sig sjálft að það þarf að stækka aðstöðuna töluvert. Markmið okkar fyrir tímabilið snúast ekki um sæti eða slíkt, við erum með nýtt sameinað lið, nýja leikmenn og nýtt þjálfarateymi svo við ætlum bara að einblína á góðar frammistöður. Byrjun okkar lofar góðu og ég er bjartsýnn fyrir sumarið.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Gylfi lék fótbolta með Fylki upp yngri flokka og sneri sér síðan að dómgæslu en þjálfaði líka.

„Ég var aldrei að fara að verða atvinnumaður í fótbolta. Þetta var gaman og ég á margar yndislegar minningar úr fótbolta með mínum bestu vinum. Það skiptir mig miklu meira máli. Að leikmannaferlinum loknum varð ég dómari í nokkur ár en er núna kominn á fullt í þjálfun. Ég hef verið þjálfari í tæp tíu ár og þar af í fullu starfi sl. þrjú ár. Ég er búinn með UEFA B-þjálfaragráðu og er byrjaður á A-gráðunni. Ég þjálfaði í yngri flokkum hjá Fylki, Stjörnunni og HK, svo tók ég lið Árbæjar í meistaraflokki karla, strákar úr Árbænum sem stofnuðu lið. Síðast var ég aðstoðarþjálfari kvennaliðs HK í Lengjudeildinni og stökk á þetta tækifæri þegar kallið kom frá Grindavík/Njarðvík. Mér leist strax vel á þetta verkefni eftir að ég hitti forsvarsfólk félaganna. Hingað til hefur þetta gengið mjög vel, mikill andi í félögunum og við erum spennt fyrir sumrinu,“ sagði Gylfi.

Lið Grindavíkur/Njarðvíkur hefur leiktíðina á laugardaginn kl. 14:00 á heimavelli sínum á JBÓ-vellinum í Njarðvík og mæta liði ÍBV.