Skapandi kraftur og hugsjónakona í þágu sjálfbærni
Ásta Kristín er kona mánaðarins hjá FKA Suðurnes
Víkurfréttir í samstarfi við FKA Suðurnes, féagl kvenna á Suðurnesjum í atvinnulífinu, kynna Suðurnesjakonur í félaginu. Markmið með kynningunum er að vekja athyli á FKA konum í atvinnulífinu á Suðurnesjum, fyrirtækjunum þeirra, eða verkefnunum sem þær sinna. FKA Suðurns er hluti af FA á Íslandi, félagi kvenna í atvinnulífinu.
Nafn: Ásta Kristín Guðmundsdóttir
Aldur: 46 ára, fædd 16. desember 1978 í Keflavík
Ásta Kristín Guðmundsdóttir er fædd og uppalin í Keflavík og hefur ávallt borið sterkar taugar til heimahaga. Hún hefur þó víkkað sjóndeildarhringinn á lífsleiðinni – búið á Spáni, í Þýskalandi og Noregi og eignast þrjú börn, hvert í sínu landi. Þessi fjölbreytta lífsreynsla hefur mótað Ástu sem víðsýna og framtakssama konu sem hefur sterka þörf fyrir að skapa, læra og hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt. Ásta er kona mánaðarins hjá FKA Suðurnes.
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á að læra og þroskast sem manneskja, því hefur menntavegurinn verið fjölbreyttur en námið hef ég allt tekið samhliða vinnu nema grunnnámið mitt. Ég hóf háskólagöngu mína í Háskóla Íslands og lauka BA-próf í heimspeki og viðskiptafræði 2003. Síðan þá hef ég nánast alltaf verið að læra eitthvað. Ég fór eitt ár í hönnun og nýsköpun í Iðnskólanum í Hafnarfirði svo árið 2011 lauk ég kennsluréttindanámi frá Háskóla Íslands. Í Noregi bætti ég við mig diplómu í geðheilbrigði barna og ungmenna og ensku frá Høgskulen på Vestlandet. Árið 2021 kláraði ég MS gráðu í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst og stunda núna nám með vinnu í MS í umhverfis- og auðlindafræði í Háskóla Íslands. Svo er ég líka markþjálfi frá Evolvía, en ég held að þetta sé komið gott af námi í bili hjá mér en það segi ég alltaf en er svo komin í eitthvað nám - maður lærir svo lengi sem maður lifir...“
Sjálfbærni og kennsla
„Í dag starfa ég sem umhverfis- og úrgangsráðgjafi hjá Pure North, sem er umhverfistækni fyrirtæki staðsett í Reykjavík og Hveragerði. Þar fæ ég að vinna við það sem mér þykir mikilvægt, að aðstoða fyrirtæki og sveitarfélög við að huga að umhverfismálum með því að bæta úrgangstjórnun sína. Umhverfis– og sjálfbærnimál hafa alltaf skipt mig máli enda höfum við bara afnot af einni plánetu til að lifa okkar lífi en við mannfólkið þurfum alveg að taka okkur á í því hvernig við lifum og notum auðlindir jarðarinnar okkar. Það er gott að geta haft áhrif til góðs hvort sem það er að vinna við ráðgjöf eins og ég geri núna eða vinna við kennslu.“
Ásta hefur unnið við kennslu, stjórnunarstörf og ráðgjöf, bæði hérlendis og erlendis. Hún segir mikilvægt að hafa hugrekki til að prófa nýja hluti og nýta þau tækifæri sem lífið býður upp á.
„Ég hef starfað bæði sem kennari og stjórnandi á Íslandi og í Noregi en ég bjó í Noregi í sjö ár með manninum mínum og þremur börnum. Noregur er dásamlegt land með fjölbreyttri, fallegri náttúru og menningu sem er bæði ólík og lík okkar. Ég hef alltaf verið opin fyrir nýjum áskorunum og tækifærum, sem hefur gefið mér dýrmæta reynslu og innsýn í ólík svið og menningu. Ég vil stöðugt vera að læra nýja hluti og ögra sjálfri mér með ýmsum verkefnum, stundum óþarflega mikið en það gerir mig vonandi að sterkari og úrræðabetri manneskju fyrir vikið. Mér finnst mikilvægt að láta gott af mér leiða í lífi og starfi og reyni að grípa þau tækifæri sem gefast, eins það að vera í stjórn FKA Suðurnesja og sitja í Velferðarráði Reykjanesbæjar fyrir Umbót.“
Sköpunarkraftur
Ásta hefur hannað og smíðað ýmsa hluti heima hjá sér og er heppin að eiga pabba sem á verkstæði með öllum græjum til að láta hugmyndirnar verða að veruleika. Í Mars opnaði Ásta listasýninu á ullarverkum á Hótel Varmalandi í Borgarfirði. Þar fer hún ótroðnar slóðir með innblæstri af íslenskri náttúru og íslenskri ull.
„Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir að skapa og hef málað, hannað og smíðað allskonar nytsamlega hluti heima hjá mér. Myndlistasýningin mín heitir „Ullarlandslag“ og er óður til íslenskrar náttúru og þeirra krafta sem búa í henni. Mér finnst skapandi vinna ótrúlega gefandi – hún veitir mér hugaró, gleði og orku. Ég er svo heppin að tengdamóðir mín á vinnustofu þar sem ég hef aðgang að ull og tækjum til að láta sköpunarkraftinn njóta sín. Mér finnst gaman að prófa mig áfram með nýja tækni og efnivið en árið 2009 hélt ég sýningu á glerverkum og akrílverkum á Ljósanótt. Svo er ég að vinna að verkefni með nepölskum teppaframleiðanda sem er ótrúlega spennandi og í raun óvænt tækifæri sem kom til mín.“
Suðurnesin, góður staður til að ala upp börn
„Suðurnesin hafa upp á margt að bjóða en fyrst og fremst er gott að ala upp börn hér. Hér er frábært framboð af afþreyingu fyrir börn, góðir skólar, öruggt umhverfi og stuttar vegalengdir. Ég æfði körfubolta með Keflavík þegar ég var yngri og finnst ekkert skemmtilegra en að horfa á dóttur mína spila með Keflavík. Svo er það þetta fjölmenningarlega samfélag hér á Suðurnesjum sem er tækifæri til vaxtar ef við förum rétt að. Ég hef alltaf verið forvitin um aðra menningu og horft frekar á það sem sameinar okkur sem manneskjur heldur en það sem sundrar okkur. Ég vil halda áfram að gera samfélagið okkar frábært og styðja við vöxt þess. Það er bara eitthvað við Keflavíkurgenið – það er sterkt í mér!“
Ásta skráði sig í FKA vegna þess að hún er mikil félagsvera, atorkusöm og vildi styrkja tengslanetið sitt.
„FKA býður upp á fjölbreytta viðburði sem efla konur - bæði faglega og persónulega. Þar fær maður aukið hugrekki til að standa með sjálfum sér og hafa gaman. Eftir hvern fund kem ég heim með gleði í hjarta og kraft til að láta gott af mér leiða. FKA er fyrir allar konur og kvár, við erum vaxandi félagsskapur sem vill styðja við konur á Suðurnesjum.“
Að lokum sendir Ásta konum á Suðurnesjum hvatningarorð :
„Hafðu trú á sjálfri þér – þú getur meira en þú heldur. Sýndu hugrekki og auðmýkt gagnvart þeim verkefnum sem lífið leggur á veginn þinn og mundu að njóta vegferðarinnar, því það er vegferðin sem skiptir máli – ekki endastöðin.“