Bygg
Bygg

Íþróttir

Þróttur í Vogum vill festa sig í sessi í 2. deildinni
Auðunn hægra megin, með Jóni Óla Daníelssyni, knattspyrnuþjálfara frá Vestmannaeyjum.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 9. maí 2025 kl. 06:05

Þróttur í Vogum vill festa sig í sessi í 2. deildinni

Byrjunin lofar góðu eftir sigur í fyrstu umferð á útivelli

Þróttur í Vogum hefur náð eftirtektarverðum árangri í knattspyrnunni undanfarin ár en þetta litla bæjarfélag var með lið í Lengjudeildinni, næst efstu deild í knattspyrnu á Íslandi 2022. Þeir hafa verið ofarlega í 2 deildinni síðan þá og voru aðeins einu stigi frá öðru sætinu í fyrra, sem hefði fært þá upp um deild. Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum á milli tímabila og auk þess leyfðu Þróttarar þjálfaranum Gunnari Má Guðmundssyni, oft nefndur hr. Fjölnir, að taka við sínu uppeldisfélagi í vetur. Nýr þjálfari tók við í mars, FH-ingurinn Auðun Helgason.

Auðun er uppalinn FH-ingur, lék um tíma sem atvinnumaður erlendis og lauk leikmannferlinum samhliða þjálfun en hann var ekki búinn að þjálfa í nokkur ár þegar kallið kom frá Marteini og félögum úr Vogum.

„Ég var síðast að þjálfa þegar ég bjó á Hornafirði og var með lið Sindra 2015 og 2016. Ég tók skóna fram á ný og náði því að spila þar til ég varð 42 ára gamall. Ég rak eigin lögmannsstofu á Hornafirði en flutti aftur suður 2020 og hef sinnt lögmennskunni síðan þá. Ég var staddur í fríi á Spáni þegar Marteinn hringdi í mig og ég fann strax hvernig fótboltabakterían blússaði upp í mér. Ég fann að ég var til í slaginn, byrjaði í mars og hlakka til að vinna með þessu frábæra fólki í Vogum. Við viljum standa okkur fyrir samfélagið, það er mjög vel hugsað um okkur. Starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar hefur tekið mjög vel á móti okkur, það er búið að taka klefann okkar í gegn fyrir sumarið og erum við mjög þakklátir fyrir það.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Ég tek við góðu búi af Gunnari Má, sem bauðst að taka við uppeldisfélagi sínu, Fjölni. Það urðu einhverjar breytingar á leikmannahópnum frá því í fyrra eins og gengur og gerist en í fyrsta leik tímabilsins voru átta í byrjunarliði sem voru í fyrra. Við fengum inn unga og bráðefnilega leikmenn sem vilja taka næstu skref á sínum ferli. Ég tók við fyrir tveimur mánuðum, hefði auðvitað vilja taka fullt undirbúningstímabil en við mætum fullir sjálfstrausts og bjartsýnir til leiks. Andinn í hópnum er frábær og mikil tilhlökkun í mannskapnum.

Árangur þessa félags hefur verið eftirtektarverður undanfarin ár og ég hlakka mikið til að starfa fyrir það. 2. deildin hefur styrkst mikið á undanförnum árum og verður mjög sterk í ár. Við ætlum okkur að vera í efri hlutanum en erum ekki með yfirlýst markmið um að komast upp. Það sem Þróttur vill gera er að gera sig gildandi í 2. deildinni en eins og í fyrra þar sem liðið var mjög gott og möguleiki var á að fara upp, þá er að sjálfsögðu látið á það reyna.

Byrjunin á tímabilinu var mjög góð, við gerðum góða ferð upp á Skaga og unnum 1-2 sigur á liði Kára, þeir minnkuðu muninn á fimmtu mínútu í uppbótartíma svo sigurinn var öruggur. Það var góð mæting Vogabúa á þennan leik og trúi ég ekki öðru en Vogabúar fjölmenni á fyrsta heimaleikinn sem er á morgun, laugardag gegn Dalvík/Reyni. Við erum brattir fyrir sumarið,“ segir Auðun.