Njarðvík hélt sér á lífi með frábærum sigri gegn Haukum á útivelli
Njarðvík mætti í kvöld með bakið góða upp við vegg Ólafssals Hauka á Ásvöllum. Haukar höfðu unnið fyrstu tvo leikina og gátu tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri. Eftir frábæran annan fjórðung leiddi Njarðvík í hálfleik, 40-53 og í seinni hálfleik var allt í járnum en Njarðvík náði að knýja fram sigur í æsispennandi leik, 93-95, og þar með fjórða leikinn í Icemar-höll sinni á laugardagskvöld.
Leikurinn var í járnum í fyrsta leikhluta og var jafnt að loknum honum, 27-27. Njarðvík tók öll völd í upphafi annars leikhluta og skoraði fyrstu 17 stig fjórðungsins! Haukar komust ekki á blað fyrr en fjórar mínútur voru eftir. Minnstu munaði að Njarðvík leiddi með u.þ.b. tuttugu stigum í hálfleik, þær voru sautján stigum yfir, áttu sókn en töpuðu boltanum og Haukar skoruðu þrist auk þess sem brotið var á skyttunni og vítið fór sömuleiðis niður. Því ekki nema „bara“ þrettán stiga munur í hálfleik, 40-53.
Haukar byrjuðu seinni hálfleik miklu betur og náðu að stela boltanum þrisvar sinnum þegar Njarðvík var að reyna koma upp með boltann. Munurinn minnkaði hægt og bítandi en afdrifaríkt atvik átti sér stað þegar rúmar tvær mínútur voru búnar af seinni hálfleik, dæmd var óíþróttamannsleg villa á einn útlendinga Hauka, Diamond Alexis Battles. Hún hafði fengið tæknivillu á sig í fyrri hálfleik fyrir mótmæli og þurfti því að yfirgefa völlinn. Þarna munaði ekki nema sjö stigum og rétt áður en þessi dómur féll, misnotuðu Haukar sniðskot á klaufalegan máta. Það sem eftir lifði fjórðungsins var allt í járnum og staðan að honum loknum, 71-75.
Það var eins og allur vindur væri úr Njarðvíkingum í upphafi fjórða leikhluta, þeim gekk illa að skora á meðan Haukakonur gengu á lagið. Einar Árni, þjálfari Njarðvíkur, tók leikhlé þegar Haukar settu stóran þrist, þær að vinna leikhlutann 10-2 og staðan orðin 81-77 fyrir Hauka. Krista Gló Magnúsdóttir kom með sterkan þrist út úr leikhléinu og Njarðvík vann svo boltann og Hulda María Agnarsdóttir kom þeim yfir. Í hönd fóru æsispennandi lokamínútur þar sem stór þriggja stiga skot fóru niður. Liðin skiptust á forystunni en Haukar höfðu hana þegar 28 sekúndur lifðu leiks, staðan 93-92 og Njarðvík tók leikhlé. Krista Gló setti frábæran þrist niður og Haukar tóku leikhlé. Þær köstuðu boltanum út af, Njarðvík fékk boltann en dæmt uppkast og Haukar áttu örina, þvílíkur leikur! Haukar töpuðu boltanum aftur og Njarðvík tókst að sigla sigrinum í höfn, lokatölur 93-95.
Frábær sigur Njarðvíkur og þær halda sér á lífi! Sem fyrr voru útlendingarnir atkvæðamestar en hinar ungu Krista Gló og Hulda María voru líka frábærar. Næsti leikur er í Icemar-höllinni á laugardagskvöld og verður fróðlegt að sjá hvort Njarðvík nái að knýja fram oddaleik. Njarðvíkingar hljóta að troðfylla Icemar-höllina á laugardagskvöld!
Tölfræði leiksins:
Haukar-Njarðvík 93-95 (27-27, 13-26, 31-22, 22-20)
Haukar: Lore Devos 35/11 fráköst, Rósa Björk Pétursdóttir 18/6 fráköst, Diamond Alexis Battles 16, Þóra Kristín Jónsdóttir 12/10 stoðsendingar, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 10, Agnes Jónudóttir 2, Inga Lea Ingadóttir 0, Lovísa Björt Henningsdóttir 0, Arnheiður Ísleif Ólafsdóttir 0, Sigrún Björg Ólafsdóttir 0, Anna Lóa Óskarsdóttir 0, Sólrún Inga Gísladóttir 0.
Njarðvík: Brittany Dinkins 24/6 fráköst/9 stoðsendingar, Paulina Hersler 22/9 fráköst/8 stoðsendingar, Hulda María Agnarsdóttir 14, Krista Gló Magnúsdóttir 14, Emilie Sofie Hesseldal 12/20 fráköst, Eygló Kristín Óskarsdóttir 3, Sara Björk Logadóttir 3, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 3, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 0, Katrín Ósk Jóhannsdóttir 0, Kristín Björk Guðjónsdóttir 0, Veiga Dís Halldórsdóttir 0.
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Bjarki Þór Davíðsson, Ingi Björn Jónsson
Áhorfendur: 908
Viðureign: 2-1