Þau munu horfa til sólar
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti nýverið að tilnefna Einar Snorrason öryggisfulltrúa sem fulltrúa sveitarfélagsins í stýrihóp vegna væntanlegs almyrkva sem verður 12. ágúst 2026. Varamaður verður Halldóra G. Jónsdóttir, starfandi sviðsstjóri menningar- og þjónustusviðs.
Í Suðurnesjabæ mun Einar Friðrik Brynjarsson deildarstjóri umhverfismála verða aðalmaður og Árni Gísli Árnason sviðsstjóri stjórnsýslu-og fjármálasviðs til vara.
Fyrir Sveitarfélagið Voga er Guðrún Kristín Ragnarsdóttir aðalmaður og Hólmgrímur Rósenbergsson varamaður.
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum vinnur nú að undirbúningi vegna þessa einstaka náttúrufyrirbæris, sem mun sjást vel af Suðurnesjum og vekur nú þegar alþjóðlega athygli. Í því skyni verður settur á laggirnar sameiginlegur stýrihópur sveitarfélaganna á svæðinu sem mun samræma skipulag og viðburði í kringum atburðinn.
Almyrkvi er sjaldgæft og áhrifamikið fyrirbæri og búast má við miklum áhuga frá bæði innlendum og erlendum gestum. Undirbúningur og viðbragðsáætlanir eru því lykilatriði og leggur Reykjanesbær áherslu á samræmda og faglega nálgun í samstarfi við önnur sveitarfélög á svæðinu.