Bygg
Bygg

Íþróttir

Aðrar áherslur hjá Reynismönnum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 9. maí 2025 kl. 06:15

Aðrar áherslur hjá Reynismönnum

Miklar breytingar á leikmannahópnum. Jó-jó lið undanfarinna ára.

Reynismenn hafa verið eins og jó jó undanfarin ár í íslenskri knattspyrnu, hafa hoppað á milli annarrar og þriðju deildar. Þeir duttu úr annarri deild í fyrra eftir að hafa komið upp árið áður og ef þeir halda áfram í þessum stíl munu þeir fara upp í sumar. Hins vegar er óljóst á þessum tímapunkti hvort þetta verði síðasta tímabilið þar sem leikið verður undir merkjum Reynis því talsverð umræða hefur verið í Suðurnesjabæ hvort sameina eigi þessi grannalið og keppinauta til margra ára.

Grindvíkingurinn Ray Anthony Jónsson er að hefja sitt þriðja tímabil með Reynismenn. Hann tók við þeim í þriðju deildinni, kom þeim upp, fylgdi þeim niður og ætlar sér að skilja vel við þá en samningur hans rennur út eftir tímabilið, enda allt eins líklegt að ekki verði leikið lengur undir merkjum Reynis, eins og áður sagði.

„Tímabilið byrjaði mjög vel hjá okkur, við mættum liði Árbæjar á heimavelli á laugardaginn og unnum öruggan sigur, 4-1. Það voru talsverðar breytingar hjá okkur á milli ára, hátt í átta leikmenn sem yfirgáfu skútuna og fimm nýir í staðinn. Einn þessara átta sem við misstum var fyrirliði liðsins, Benedikt Jónsson, hann er ekki búinn að leggja skóna á hilluna heldur er í pásu og ég vona að þetta viðtal nái til hans og hann dusti rykið af skónum, það yrði gott að fá hann til baka.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Það hefur gengið illa hjá Reyni að festa sig í sessi í annarri deildinni en þegar ég tók við liðinu var það í þeirri þriðju og við flugum upp en róðurinn var erfiður í fyrra. Það er talsverður getumunur á þessum deildum, ég fullyrði að margir leikmanna í annarri deildinni myndu sóma sér í Lengjudeildinni hið minnsta. Kröfurnar eru bara orðnar svo miklar þar og eins hefur önnur deildin styrkst mjög mikið undanfarin ár. Þriðja deildin er sömuleiðis mun sterkari en fyrir nokkrum árum en við eigum að vera á meðal sterkustu liðanna og ætlum okkur að vera í efri hlutanum. Ef þetta er síðasta tímabilið undir merkjum Reynis, þá væri frábært að enda á góðum nótum og ef við verðum í baráttu um að komast upp, þá tökum við þeirri áskorun að sjálfsögðu. Við erum að byggja þetta aðeins öðruvísi upp í ár, ætlum að spila meira á strákum sem búa í Sandgerði og nálægt, við erum með færri útlendinga svo það sést að áherslur okkar eru aðeins öðruvísi í ár. Við erum ekki með yfirlýst markmið um að komast upp en ef við förum upp og ef grannar okkar í Garðinum halda sínu sæti í annarri deildinni og sameining verður ákveðin, þá byrjar sameiningin á frábærum tímapunkti. Ég veit samt ekkert hvernig það verður, minn samningur er út þetta tímabil og forsvarsfólk félaganna og fólkið í Suðurnesjabæ, tekur þessa stóru ákvörðun,“ sagði Ray að lokum.