Íþróttir

Keflavík fagnaði sæti í efstu deild með stórsigri
Natasha Moraa Anasi skoraði þrjú mörk gegn Víkingi og hefur þá skorað þrettán mörk í deildinni í ár. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 29. september 2020 kl. 07:27

Keflavík fagnaði sæti í efstu deild með stórsigri

Fyrir leik Lengjudeildar kvenna í gær höfðu Keflavíkurstelpur tryggt sér sæti í efstu deild á næsta ári. Því miður fyrir heimaliðið kom það ekki í veg fyrir að Keflvíkingar gæfu sig alla í leikinn sem fram fór á heimavelli Víkinga. Keflavík sigraði örugglega 5:1 og fyrirliðinn skoraði þrennu.

Keflavík var betri aðilinn frá upphafi og strax á 6. mínútu skoraði Natasha Moraa Anasi fyrsta mark leiksins.

Þóra Kristín Klemenzdóttir skoraði aftur á 35. mínútu og fimm mínútum síðar var komið að Paula Isabella Germino Watnick sem kom Keflavík í 3:0 (40').

Rétt fyrir leikhlé bætti Anasi öðru marki sínu við (43') og staðan því 4:0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var rólegri af hálfu Keflvíkinga og Natasha fullkomnaði þrennuna á 76. mínútu.

Víkingsstelpur náðu einu marki í uppbótartíma þegar þær fengu vítaspyrnu (90'+2) en lengra komust þær ekki og lokatölur 5:1.

Keflavík er í öðru sæti Lengjudeildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Tindastóls en tíu stigum fyrir ofan Hauka þegar tvær umferðir eru eftir.