Grindavík vann Keflavík í Suðurnesjaslagnum
Grindvíkingar ósigraðir á toppi Bónusdeildar karla
Það var sannkallaður Suðurnesjaslagur í Grindavík í kvöld þegar heimamenn tóku á móti Keflvíkingum en fyrir leikinn voru Grindvíkingar ósigraðir og engin breyting varð á þeirri staðreynd eftir leikinn, Grindavík vann 104-92 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 53-47.
Tólf stiga munur gefur kannski ekki alveg rétta mynd af leiknum, munurinn var ekki svo mikill þegar skammt lifði leiks en þessi íþrótt gengur víst út á að koma boltanum ofan í körfuhringinn og Grindavík setti skotin sín í lokin en Keflvíkingar ekki þrátt fyrir að fá svipuð færi.
Leikurinn byrjaði jafn en svo tók Grindavík völdin og var munurinn kominn upp í tíu stig en alltaf komu Keflvíkingar til baka og ef þeir hefðu hitt sínum skotum í lokin er aldrei að vita hvernig leikurinn hefði farið en þær frænkur, Ef og Hefði, hafa aldrei verið viturlegar og þ.a.l. er staðreyndin sú að Grindavík vann leikinn og eru ennþá ósigraðir á toppi Bónusdeildarinnar.
Grindavík-Keflavík 104-92 (27-25, 26-22, 22-26, 29-19)
Grindavík: Deandre Donte Kane 24/8 fráköst/10 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 20/7 fráköst, Daniel Mortensen 18/7 fráköst/3 varin skot, Jordan Semple 18/8 fráköst, Khalil Shabazz 17/4 fráköst/5 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 6/4 fráköst, Arnór Tristan Helgason 1/4 fráköst, Alexander Veigar Þorvaldsson 0, Isaiah Coddon 0, Unnsteinn Rúnar Kárason 0, Nökkvi Már Nökkvason 0, Ragnar Örn Bragason 0.
Keflavík: Craig Edward Moller 19/8 fráköst, Darryl Latrell Morsell 17/6 fráköst, Hilmar Pétursson 14, Egor Koulechov 12/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 12, Jaka Brodnik 11/5 fráköst, Ólafur Björn Gunnlaugsson 4, Valur Orri Valsson 3, Eyþór Lár Bárðarson 0, Jakob Máni Magnússon 0, Nikola Orelj 0, Viktor Magni Sigurðsson 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Birgir Örn Hjörvarsson
Áhorfendur: 800













