Framúrskarandi fyrirtæki 2025
Framúrskarandi fyrirtæki 2025

Viðskipti

Þekktasta horn miðbæjar Keflavíkur fær nýja ásýnd
Það hefur tekist mjög vel til í innréttingum á The Dubliner.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 7. nóvember 2025 kl. 09:22

Þekktasta horn miðbæjar Keflavíkur fær nýja ásýnd

The Dubliner hefur fengið góðar móttökur. Matur og drykkur í boði alla daga, píla, billiard og tónlist.

Eitt þekktasta götuhorn í miðbæ Keflavíkur hefur tekið á sig nýja mynd en ekki alls fyrir löngu opnaði við Hafnargötu 30 veitingastaðurinn og pöbbinn The Dubliner. Keflvíkingurinn Íris Sigtryggsdóttir er þar við stjórnvölinn og hún segir að staðurinn hafi fengið góðar móttökur heimafólks og ferðamanna.

„Jú, á þessum stað á Hafnargötunni muna margir, sérstaklega af eldri kynslóðinni eftir kaupfélagsverslun sem lengi var veglegasta matvöruverslun bæjarins. Sjálf vann ég hjá Kaupfélaginu um tíma þannig að þetta hljómar allt vel í mínum eyrum. Svo er stutt í vinnuna hjá mér. Ég bý hinum megin við götuna,“ segir Íris.

Ný ásýnd

Bílakjarninn nóv. 25 VW
Bílakjarninn nóv. 25 VW

Það er gaman að sjá nýja ásýnd á þessu fræga götuhorni og nýtt „útlit“ utan sem innan kemur skemmtilega á óvart. Allsherjar umbreyting var gerð á húsnæðinu sem þurfti vægast sagt hressingu. Staðurinn er hinn hlýlegasti þegar inn er komið. Bar er fyrir miðjum sal og síðan eru sæti fyrir 250 manns allt um kring. Á Dubliner er eldhús og á matseðli er boðið upp á fjölbreyttan mat eins og fisk og franskar, hamborgara, kjúklingasalat, ýmsa smárétti og vinsæla eftirrétti eins og New York ostaköku og fleira. Um þessar mundir er boðið upp á hádegistilboð fyrir tvö þúsund krónur.

„Við erum þessa dagana að vinna í smá breytingum en hún felst í því að opna á milli fyrrverandi veitingastaðar sem var áður í húsnæðinu og inn á Dubliner. Við erum bjartsýn á að geta boðið einstaklingum og hópum upp á góðan mat og drykki og skemmtilega samveru. Hér er spiluð ljúf tónlist og síðan höfum við boðið upp á og munum bjóða upp á tónlistaratriði, trúbatora og „DJ“. Á staðnum eru píluspjöld sem eru í boði ókeypis og við erum að stefna á að setja upp púlborð. Það er gaman að geta tekið í kjuða og farið í billiard. Þá eru sex stórir sjónvarpsskjáir þar sem hægt er að fylgjast með íþróttaviðburðum, enska boltanum, golfi eða hverju sem er.“

Á Dubliner er opið alla daga frá 11.30 til eitt alla daga nema föstudaga og laugardaga er opið til þrjú eftir miðnætti.“

Íris segir að mótttökurnar hafi verið mjög góðar og framar væntingum. Páll Óskar tryllti mannskapinn á Ljósanótt en risastór diskókúla var sett upp við staðinn á hátíðinni og vakti mikla athygli.

Kemur á óvart

„Við bjóðum alla velkomna, ekki síst 40 ára og eldri og erum með allt í boði á barnum, m.a. Guiness á krana auk allra helstu bjórtegunda og verðið er sanngjarnt, stór bjór frá eitt þúsund krónum. Við erum með „happy-hour“ alla daga frá kl. 12 til kl.21. En það er líka hægt að koma inn í gott kaffi og kökur, við erum með mjög góða hamborgara, fisk og franskar og kjúklingasalat og margt fleira. Hér getur fjölskyldan komið inn, vina- og starfsmannahópar gert sér glaða stund, spjallað og hlustað á þægilega tónlist í vinalegu umhverfi. Mig grunar að það eigi eftir að koma mörgum á óvart en það var mikil vinna lögð í að gera staðinn hlýlegan,“ segir Íris.

Dubliner er þrjátíu ára gamalt fyrirtæki en samnefndir staðir eru reknir á tveimur stöðum í Reykjavík. Föstudaginn 7. nóvember verður J-dagurinn en þá er nýr Tuborg jólabjór kynntur til leiks en það er árleg hefð. „Við hvetjum fólk til að kíkja á okkur. Það er alltaf mikil stemning fyrir J-deginum og ég lofa því hjá okkur,“ segir Íris.

Staðurinn hefur allur verið tekinn í gegn, að innan sem utan. Hann er opinn alla daga frá kl. 11.30. Íris Sigtryggsdóttir er hér við barinn.

Gömul en góð og vegleg hurð frá tímum kaupfélagsins er ennþá í notkun.

Dubliner
Dubliner