Dubliner
Dubliner

Fréttir

Ný samfélagsmiðja og lifandi miðsvæði
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 7. nóvember 2025 kl. 13:38

Ný samfélagsmiðja og lifandi miðsvæði

Framtíðarsýn fyrir Akademíureit í Reykjanesbæ kynnt laugardaginn 8. nóvember

Reykjanesbær vinnur nú að því að móta nýtt lifandi miðsvæði á svonefndum Akademíureit austan við Reykjaneshöllina, á horni Þjóðbrautar og Krossmóa. Lögð hefur verið fram framtíðarsýn sem unnin er af Alta í október 2025, undir yfirskriftinni „Nýtt akkeri – framtíðarsýn fyrir nýja samfélagsmiðju í Reykjanesbæ.“ Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti að heimila kynningu á verkefninu fyrir almenningi og hagaðilum sem verður í Íþróttaakademíunni laugardaginn 8. nóvember kl. 13:00 til 17:00.

Markmiðið er að skapa miðsvæði með blandaðri byggð þar sem samkomutorg, gönguás og íbúðir tengjast menningar- og íþróttastarfsemi. Hugmyndin byggir á að Akademíureiturinn verði nýtt akkeri bæjarins, miðpunktur milli eldri bæjarhluta Keflavíkur og Njarðvíkur, þar sem íbúar og gestir geta hist, dvalið og notið fjölbreyttrar starfsemi allt árið.

Bílakjarninn nóv. 25 VW
Bílakjarninn nóv. 25 VW

Nýtt hjarta bæjarins

Framtíðarsýnin gerir ráð fyrir að Akademíureitur verði þróaður í sex meginreiti þar sem saman blandast íbúðir, verslun, þjónusta, hótel og almenningsrými.

Miðpunktur svæðisins verður samkomutorg, sem hýsir veitingastaði, kaffihús og viðburði allt árið. Þar á að rísa svokallað „Ljósatorg“, með listaverki og lýsingu sem vísar til Ljósanætur.

Í gegnum svæðið mun liggja gönguás, „rauði þráðurinn“, sem tengir Reykjaneshöllina við samgöngumiðstöðina við Krossmóa og áfram að Stekkjahamri við sjóinn. Meðfram gönguásnum verða græn svæði, leiksvæði, listskreytt skyggni og kaffihús í smáhýsum.

Íbúðir, hótel og menning

Gert er ráð fyrir uppbyggingu 2–4 hæða íbúðarhúsa í mannlegum skala, með þaksvölum og inngörðum sem snúa í suður. Íbúðir verða á bilinu 40–90 m², og jafnframt er gert ráð fyrir deiliíbúðum eða íbúðum fyrir tímabundið starfsfólk.

Á norðurhluta reitsins, meðfram Þjóðbraut, geta risið hótel, skrifstofur eða íbúðir, en suðurhlutinn verður einkum íbúðabyggð með grænum inngörðum.

Samgöngur og vistvæn nálgun

Við Krossmóa verður reist ný samgöngumiðstöð, með biðstöð og aðstöðu fyrir strætisvagna. Gert er ráð fyrir að Þjóðbraut verði endurhönnuð sem borgargata með 30 km hámarkshraða, og að Afreksbraut verði framlengd til að bæta aðkomu að íbúðarkjörnum.

Lagt er upp með vistvæna nálgun og blágrænar lausnir til að meðhöndla ofanvatn, auk þess sem bílastæði verða að mestu falin í kjöllurum eða bílahúsum.

Næstu skref

Framtíðarsýnin verður kynnt almenningi á opnu húsi í Íþróttaakademíunni í nóvember, þar sem bæjarbúar geta kynnt sér áform sveitarfélagsins. Að því loknu verður unnið að rammaskipulagi og deiliskipulagi fyrir svæðið, og útboð á fyrstu íbúðarlóðum stefnt fyrir lok árs 2025.

Akademíureiturinn er hluti af langtímastefnu Reykjanesbæjar um að efla miðbæjarlíf, bæta samgöngur og skapa nýtt hjarta bæjarins þar sem menning, íþróttir, íbúðir og þjónusta mætast á einum stað.

Dubliner
Dubliner