Davíð Smári Lamude ráðinn þjálfari Njarðvíkur út tímabilið 2027
Njarðvík hefur ráðið Davíð Smára Lamude sem nýjan þjálfara liðsins og gildir samningur hans til loka keppnistímabilsins 2027. Skrifað var undir samning við þjálfarann nú síðdegis
„Davíð sem er einn af mest spennandi þjálfurum landsins kemur til liðs við okkur frá Vestra þar sem hann hefur verið við stjórnvölinn frá árinu 2023,“ segir í tilkynningu Njarðvíkinga við undirritunina.
Davíð leiddi Vestra upp úr Lengjudeildinni í Bestu deildina á sínu fyrsta ári, hélt sæti liðsins í Bestu deild á árinu eftir og vann á nýliðnu tímabili fyrsta bikarmeistaratitil félagsins. Hann var síðar látinn fara frá Vestra eftir slæmt gengi liðsins í síðari hluta mótsins. Áður stýrði Davíð Kórdrengjum á árunum 2017–2022 og fór með liðið alla leið úr 4. deild upp í Lengjudeildina.
„Njarðvík býður Davíð hjartanlega velkominn til starfa hjá félaginu og vonast til að samstarfið verði farsælt. Unnið er að því að klára þjálfarateymið sem verður Davíð innan handar og verður það tilkynnt þegar það liggur fyrir,“ segir jafnframt.
Njarðvíkingar féllu úr leik í undanúrslitum umspils Lengjudeildar síðastliðið sumar undir stjórn Gunnars Heiðars Þorvaldssonar, sem tekur nú við HK. Stefna Njarðvíkur er að fara alla leið upp í Bestu deild á næsta tímabili.






