Sporthúsið
Sporthúsið

Íþróttir

Einar Orri orðinn leikmaður Njarðvíkinga
Einar Orri klæðist grænni treyju næsta tímabil. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 11. nóvember 2020 kl. 17:40

Einar Orri orðinn leikmaður Njarðvíkinga

Einn reyndasti knattspyrnumaður Suðurnesja, Einar Orri Einarsson, var rétt í þessu að skrifa undir tveggja ára samning við Njarðvík og mun því taka slaginn með þeim í annarri deild á næsta ári.

Einar Orri er uppalinn Keflvíkingur og lék 180 leiki með meistaraflokki félagsins á árunum 2005 til 2018 en hefur leikið með Kórdrengjum síðustu tvö tímabil og verið fyrirliði þeirra. Einari líst vel á að klæðast grænu treyjunni og segist aldrei hafa fundið fyrir neinum ríg á milli Keflavíkur og Njarðvíkur, hann sé meira viðloðandi körfuna. Honum líst vel á það sem sé í gangi hjá Njarðvík og „það er góður bragur á þessu og ég er bara peppaður fyrir þessu verkefni“. Bjarni Jóhannsson, annar þjálfara liðsins, sagði eftir ráðningu sína fyrir helgi að stefnan sé tekin beint upp í Lengjudeildina að ári. „Ég ætla að vona að ég geti komið með eitthvað að borðinu, þekki þessa deild ágætlega eftir að hafa spilað í henni í sumar og gengið vel í henni,“ sagði Einar.

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun

Einar Orri varð deildarmeistari í ár með Kórdrengjum og aðspurður sagði hann að þau tvö ár sem hann sé búinn að vera með þeim standi svolítið upp úr á ferlinum, að hafa orðið deildarmeistari tvö ár í röð. „Þetta var svolítið öðru vísi en það sem ég hafði kynnst, hafði bara verið í Keflavík sem er rótgróið félag og maður fer í allt annað umhverfi. Þetta er lítið félag og miklu minna um sig en hins vegar kynntist ég mörgum góðum og þessir fáu sem standa að félaginu gera það mjög vel. Ég sé ekki eftir því að hafa tekið þessi tvö ár og prófað eitthvað allt öðruvísi.“

Einar Orri með þjálfurum Njarðvíkinga, þeim Bjarna Jóhannssyni (t.v.) og Hólmari Erni Rúnarssyni.

Hólmar Örn Rúnarsson, annar nýráðinna þjálfara Njarðvíkinga, og Einar Orri þekkjast vel en þeir léku saman með liði Keflavíkur í fjölda ára. Einar segir kynni þeirra hafi haft áhrif á ákvörðun hans. Ég átti tvö eða þrjú góð spjöll við Bóa, við vorum náttúrlega saman sem leikmenn og erum vinir. Hann hafði klárlega einhver áhrif á þetta – það skaðaði alla vega ekki hann skyldi hafa komið inn í þetta.“

Í spilaranum hér að neðan má sjá stutt spjall við Einar Orra Einarsson, nýjan leikmann Njarðvíkur í fótbolta.