Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Asíska undrið skýtur upp kollinum
Pétur slær af þriðja teigi Leirunnar, Bergvíkinni, í stigamót GSÍ sem haldið var í júní. VF-mynd: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 4. júlí 2021 kl. 08:04

Asíska undrið skýtur upp kollinum

Kylfingurinn Pétur Þór Jaidee er 32 ára gamall Sandgerðingur sem hefur verið að gera góða hluti á mótaröð Golfsambands Íslands undanfarin tvö ár. Það hefur vakið furðu margra að hafa ekki séð til hans í keppnisgolfi fyrr en á fertugsaldri.

„Ég er úr Sandgerði. Flutti þangað sex ára gamall með foreldrum mínum og bjó í Sandgerði til 25 ára aldurs þegar ég flutti til Keflavíkur. Núna bý ég með konunni minni og tveimur börnum okkar í Njarðvík.“

– Þið þokist hægt og rólega í áttina að höfuðborgarsvæðinu, eru það Vogar næst?

Public deli
Public deli

„Næst er það reyndar Innri-Njarðvík, við erum búin að kaupa þar og fáum afhent í ágúst. Þannig að þetta er rétt hjá þér, við erum að nálgast höfuðborgarsvæðið,“ segir Pétur og hlær.

Lék golf í fyrsta sinn í meistaramóti

– Hvenær byrjaðir þú í golfi?

„Ég byrjaði þegar ég var fjórtán ára. Ég var sem sagt í fótbolta og þá hringdi vinur minn í mig og sagði: „Heyrðu Pétur, ég er búinn að skrá þig í meistaramótið hjá GSG.“

Það var í fyrsta skipti sem ég fór í golf, þ.e. á golfvelli. Keppti í nýliðaflokki í meistaramótinu í Sandgerði, fjórtán ára gamall og gekk bara vel.“

– Og hefurðu verið í golfi síðan?

„Nei, ekki alveg. Ég var í golfi þar til ég varð sautján ára, hætti þá og fór í fótboltann. Fór aftur í golfið tvítugur og var í þrjú ár, þá fór ég aftur í fótboltann en hætti honum svo alveg þegar ég var 28 ára gamall – þegar ég hætti í fótboltanum fór Reynir loksins að geta eitthvað. Ég veit ekki hvað ég var að gera þarna, ég hefði bara getað verið í golfi,“ segir Pétur léttur í bragði.

Hver ertu? Hvaðan komstu?

Pétur hefur tekið þátt í mótaröð GSÍ síðustu tvö sumur og gengið býsna vel. Margir sem fylgjast með golfinu hafa velt því fyrir sér hver þessi kylfingur sé því það er ekki algengt að kylfingar skjóti upp kollinum í íslensku keppnisgolfi þegar þeir eru komnir á fertugsaldurinn. Það að auki stingur Pétur útlitslega í stúf við flesta aðra keppendur en mamma hans er tælensk og pabbi hans íslenskur.

„Þegar ég hætti í fótboltanum ákvað ég að taka golfið föstum tökum. Ég byrjaði á að skipta úr Golfklúbbi Sandgerðis yfir í Golfklúbb Suðurnesja til að fá meiri keppni og leika á erfiðari velli, þ.e. að geta leikið af hvítum teigum en það er ekki í boði í Sandgerði. Svo var þjálfarinn, Siggi Palli [Sigurpáll Geir Sveinsson], stór ástæða þess að ég skipti yfir því maður þarf alltaf leiðsögn í þessu sporti. Ég horfði bara á það sem GS var að gera og leist vel á það sem var í gangi þar.

Ég skipti yfir fyrir fjórum árum og fyrstu tvö árin notaði ég bara til að leika mér, það tók alveg tíma að kynnast vellinum og fólkinu í klúbbnum og svona. Síðustu tvö ár hef ég tekið golfið alvarlega, sett mér markmið, æft vel og verið að keppa – og það hefur gengið alveg ágætlega.

Þetta er annað árið mitt í GSÍ mótaröðinni og fyrir tveimur helgum tók ég þátt í Íslandsmótinu í holukeppni og gekk bara mjög vel. Eitt af markmiðum mínum fyrir sumarið var að komast inn í þessa holukeppni en það eru bara 32 sem fá þátttökurétt. Maður þarf að vera ofarlega á mótunum til að komast inn, það er svaka keppni um þátttökuréttinn en það tókst hjá mér.“

– Hvað náðir þú langt í holukeppninni?

„Fyrst er keppt í átta fjögurra manna riðlum og efsti maður í hverjum riðli kemst áfram í átta manna úrslit. Við vorum fjórir efstir og jafnir í mínum riðli, innbyrðis viðureignir okkar voru jafnar og á endanum þurftu dómararnir að telja með hversu mörgum holum hver hefði unnið leikina til að fá niðurstöðu. Ég komst ekki áfram en vann tvo leiki af þremur. Með tvo vinningar hef ég örugglega náð að enda á ágætis stað í mótinu en ég veit ekki nákvæmlega hvar ég endaði.“

– Hvað er svo framundan?

„Það styttist í meistaramót GS sem byrjar á miðvikudaginn í næstu viku, ég verð klárlega með í því. Mitt markmið þar er að spila eins vel og ég get og vera sáttur við spilamennskuna í mótinu. Ef það er nóg til að vinna verður það alveg frábært. Það er lítið hægt að stjórna því sem aðrir gera á golfvellinum. Ef einhver kemur með svaka flugeldasýningu og kemur inn á sextán undir pari eða eitthvað, þá er lítið sem ég get gert í því. Ef ég er sáttur við spilamennskuna mína og gerði allt sem ég gat, þá er ég bara sáttur.“

Pétur og unnusta hans, Thelma Rúnarsdóttir, við gosið í Fagradal. Á innfelldu myndinni eru þau með börnunum sínum, Kristel Maríu og Leonard Rúnari, í Bláa lóninu. Myndir af Facebook-síðu Péturs


Tekur þátt í Íslandsmótinu

„Það eru tvö mót eftir í Íslandsmótaröðinni, Hvaleyrarbikarinn sem verður tveimur vikum eftir meistaramótið og svo er Íslandsmótið haldið á Akureyri helgina eftir verslunarmannahelgina. Það er þétt prógram framundan því í millitíðinni verður Íslandsmót golfklúbba haldið sem er liðakeppni.

Ég verð með á Íslandsmótinu. Við fjölskyldan ætlum að fara norður um verslunarmannahelgina og verðum þar fram yfir Íslandsmótið.“

– Talandi um fjölskylduna, ertu giftur?

„Nei, ég er í sambúð með Thelmu Rúnarsdóttur og við eigum tvö börn saman, Kristel Maríu Jaidee (sjö ára) og Leonard Rúnar Jaidee (fimm ára). Kristel fer í annan bekk í haust en Leonard á eitt ár eftir í leikskóla.“

Stelpan mín æfir fimleika og strákurinn er í fótbolta með Keflavík en hann á golfsett og fer stundum með mér í golf. Konan mín er aðeins byrjuð í golfi, hún fór á nýliðanámskeið hjá GS og hefur spilað níu holur með mér – og er alveg að elska þessa íþrótt í botn, sem er frábært. Ég verð samt að passa mig á því að taka hana ekki of oft með mér í golf, svo hún fái ekki jafn mikla bakteríu og ég, það gengi aldrei með tvö ung börn,“ segir Pétur Þór Jaidee hlæjandi að lokum.

Tengdar fréttir