Blik í auga
Blik í auga

Íþróttir

„Öllum er sama hver fær hrósið“
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 25. júní 2020 kl. 14:05

„Öllum er sama hver fær hrósið“

– segir Eysteinn Hauksson eftir stórsigur sinna manna í fyrstu umferð Íslandsmótsins

Víkurfréttir heyrðu í Eysteini Haukssyni, þjálfara Keflvíkinga, eftir leik Keflavíkur og Aftureldingar í fyrstu umferð Lengjudeildarinnar í knattspyrnu. Keflvíkingar hafa farið flott af stað í Íslandsmóti og Mjólkurbikarnum en þeir eiga leik gegn Breiðabliki í kvöld í í 32 liða úrslitum bikarsins, leikurinn fer fram á Kópavogsvelli og hefst klukkan 19:15.

–Flottur leikur, í raun síðustu tveir leikir. Það hlýtur að vera blússandi stemmning og sjálfstraust í liðinu eftir þá, ekki satt?

Jú, það er ekkert hægt að biðja um mikð meira en 5:1 í fyrsta leik á móti hörkuliði. Fyrst og fremst náðum við að slá öll vopn úr höndum þeirra í byrjun með því að pressa stíft og það tókst mjög vel, þeir komust lítið áleiðis. Það kom smá kafli í stöðunni 4:0 þar sem aðeins fór að slitna á milli okkar en með fimmta markinu komumst við aftur í gang. Það var frábært veður og góð mæting, vonandi er þetta bara það sem koma skal.

– Þetta lítur rosalega vel út alla vega. Heilt yfir hvernig metur þú frammistöðuna í síðasta leik?

Þetta snýst um tímabilið í heild sinni en ekki bara að byrja vel, við erum meðvitaðir um það. Hópurinn er tilbúinn í verkefnið annað kvöld á móti Breiðabliki og svo er það Víkingur á Ólafsvík á sunnudaginn – svo hafi einhverjum dottið í hug að fara af tánum nið’rá hælana ...

Samsetningin á hópnum er líka þannig að þetta eru einbeittir strákar sem ætla að ná langt og þeir vita að þeir þurfa að sanna sig upp á nýtt á hverjum einasta morgni svo manni líst bara vel á framhaldið.

Það voru ákveðnir leikmenn sem bar meira á en öðrum í leiknum en það er einkenni klassaliða að öllum er sama hver fær hrósið.

Við höfum haldið okkur við uppskriftina að byggja upp í kringum heimastráka sem hafa rétta hugarfarið og eru með hæfileika og bæta svo inn leikmönnum sem gera þá betri. Við höldum okkur við þá línu og hugsum um hana á hverjum degi. Við höfum trú á að það geti gengið, við förum þetta ekki peningum heldur á samheldninni og ákveðninni – gömlu góðu gildunum.

Keflvíkingar fagna marki í stórsigri á Aftureldingu á föstudaginn. VF-mynd: Hilmar Bragi