Íþróttir

„Efast um að ég geti lært tungumálið“
Elvar Már hefur átt frábært tímabil með liði sínu í Litháen. Mynd af Facebook-síðu Siauliai
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 27. febrúar 2021 kl. 09:59

„Efast um að ég geti lært tungumálið“

– segir Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson sem leikur með Siauliai í Litháensku deildinni

Siauliai hefur ekki gengið sem best í vetur en frammistaða Elvars hefur staðið upp úr í leik liðsins á tímabilinu. Elvar náði þeim merka áfanga að leika fimmtugasta A-landsleik sinn gegn Lúxemborg um helgina og þá tryggði hann Íslandi sigur með því að setja niður þriggja stiga skot í þann mund er flautan gall.

– Til hamingju með fimmtíu landsleikina – að setja niður flautuþrist til að tryggja sigurinn á Lúxemborg hefur nú varla verið leiðinlegt? Gerir leikinn enn eftirminnilegri.

„Þetta var klárlega eftirminnilegt. Mikill heiður að spila fimmtíu leiki fyrir A landsliðið og skora í þeim sigurkörfuna. Þetta var góður endir á skemmtilegri ferð.“

– Hvernig fannst þér frammistaðan í leikjunum?

„Frammistaðan hjá okkur var mjög fín miðað við nánast engan undirbúning. Við vorum fljótir að spila okkur saman og fannst mér við gera mjög vel.“

– Þú ert væntanlega kominn til Litháen, hvað tekur nú við?

„Ég var að mæta aftur til Litháen og núna taka við síðustu metrarnir af tímabilinu. Sautján deildarleikir á rúmum tveimur mánuðum svo það verður nóg að gera.“

– Hvernig líður þér þarna úti?

„Mér líður ágætlega hérna, búinn að vera án fjölskyldu minnar í nánast allan vetur svo það hefur verið erfitt en félagið er gott og borgin sem ég bý í er með allt til alls svo það er yfir engu að kvarta hér.“

– Ertu farinn að bjarga þér á tungumálinu?

„Nei því miður kann ég mjög lítið í tungumálinu og efast um að ég muni geta lært það.“

– Hvernig er svona hefðbundinn dagur hjá þér?

„Morgunæfing klukkan tíu, svo er hádegismatur um tólf. Eftir það tekur við smá hvíld frá eitt til þrjú, svo önnur æfing og vídeófundir sem byrja yfirleitt í kringum fjögur og er til hálfátta. Yfirleitt eru dagarnir nokkurn veginn svona.“ 

– Hvað finnst þér standa upp úr á þessu tímabili?

„Lærdómurinn að fá að spila í svona sterkri deild er klárlega það sem stendur upp úr.“

– Hvernig er staðan á Covid þarna?

„Staðan er ekkert sérstök hérna, það hefur allt verið lokað í yfir þrjá mánuði og held ég að það sé ennþá mikið af smitum í landinu.“

– Hvernig hefur það haft áhrif á þig (æfingar, leiki, daglegt líf)?

„Það eru allir veitingastaðir lokaðir, allar verslanir og svo eru áhorfendur ekki leyfðir á leikjum – svo þetta hefur haft mikil áhrif. Búið að vera mjög einhæft en það lítur út fyrir að það sé verið að fara opna aðeins meira aftur svo það fer að birta til.“

– Áttu þér einhverjar fyrirmyndir?

„Þegar ég var yngri leit ég mikið upp til Loga og Brenton sem voru mínir uppáhaldsleikmenn.“

– Ertu með fjölskyldu með þér?

„Konan mín og sonur, Ína María og Erik Marel, hafa verið meira og minna á Íslandi í vetur þar sem allt er búið að vera lokað hér í Litháen og ekki mikið fyrir stafni. Hún hefur verið að vinna í vetur heima ásamt því að sjá um Erik Marel en þau munu koma út til mín í mars og klára tímabilið með mér hér.“

Falleg fjölskylda
Elvar með Ínu Maríu og Erik Marel, þau tvö hafa verið meira og minna á Íslandi í vetur en koma út til Elvars í næsta mánuði.