Miðflokkurinn
Miðflokkurinn

Fréttir

Íbúar við Þverholt í Keflavík hafa áhyggjur af hraðakstri
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 10. september 2021 kl. 09:38

Íbúar við Þverholt í Keflavík hafa áhyggjur af hraðakstri

Íbúar við Þverholt í Keflavík hafa sent erindi til bæjaryfirvalda um breytt fyrirkomulag umferðar um Þverholt vegna öryggis vegfarenda og íbúa. Starfsfólki umhverfissviðs er falið að fylgja þessu erindi eftir, kanna umferðarhraða, umferðarmagn og kanna tillögur að lausn, segir í afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs.

„Ég, í forsvari íbúa við Þverholt í Keflavík, skila hér inn undirskriftalista til Reykjanesbæjar þar sem skorað er á viðeigandi aðila að gera ráðstafanir á horni Þverholts og Baugholts.

Viðreisn
Viðreisn

Allt frá þeim tíma sem ég flyt í götuna (2015) hef ég orðið vitni að miklum hraðakstri og óþarfa umferð sem skapar hættu fyrir börn og aðra í hverfinu. Einnig kom skýrt fram hjá mörgum nágranna minna í Þverholtinu að þeir hafa upplifað þennan gríðarlega hraðakstur í mun lengri tíma.

Á síðustu árum hefur orðið mikil kynslóðaskipting í götunni og mikið af börnum fylgt með nýjum ábúendum. Breyting þessi myndi skapa fjölskylduvænna umhverfi, þar sem öryggi verður mun meira og áhyggjur foreldra minnka töluvert.

Íbúar í götunni eru komnir með nóg af hraðakstri og óþarfa umferð.

Allir íbúar í Þverholti skrifuðu undir og studdu lokun á götunni. Lokun þessi væri þá á horni Þverholts og Baugholts, við það lækkar hraði töluvert og viðbragð neyðaraðila lengist ekki.

Lagt er til að breyting þessi verði gerð til prufu til eins árs og svo verði árangur lokunar skoðaður.

Ekki gera ekki neitt, við erum að bjóða hættunni heim með núverandi ástandi,“ segir í erindinu sem Gísli R. Einarsson skrifar undir fyrir hönd íbúa.