Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

Það var sérstaða að fá að alast upp í Keflavík
Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir situr í meirihluta fyrir Samfylkinguna og er fyrrum nefndarmaður í fræðsluráði Reykjanesbæjar (2016-2022).
Mánudagur 19. september 2022 kl. 07:00

Það var sérstaða að fá að alast upp í Keflavík

Ég var 38 ára þegar herinn pakkaði saman og fór. Margir veltu fyrir sér þeirri sérstöðu sem það var að alast upp í Keflavík við alþjóðaflugvöll og með nágranna úr ameríska hernum. Það var spennandi að komast upp á völl fá „Kúlet“, M&M, og ég tala nú ekki um ef maður komst á Wendy’s. Ég upplifði og var oft og iðulega spurð hvernig væri að eiga heima svona nálægt herstöð. Ég þekkti ekkert annað og fannst þetta oft skrítin spurning, því þegar ég fyrst man eftir mér bjuggum við í Njarðvík með ameríska kennara af vellinum sem íbúa á neðri hæðinni í sama húsi og ég bjó í. 

Það var skellur sem kom á samfélagið hér í Reykjanesbæ árið 2006 þegar bandaríski herinn fór frá Keflavík sem þá varð til þess að fjöldi íbúa varð atvinnulaus. Herinn hafði líka samið við íslenska ríkið um að taka við eignum Varnarliðsins, í stað þess að þeir þyrftu að jafna svæðið við jörðu og hreinsa (eins og var í upphaflegum samningi). Mjög erfitt ástand varð þá á Suðurnesjum og mikið atvinnuleysi, en á móti kom ódýrara leiguhúsnæði inn á markaðinn. Nýtt hverfi varð til í Reykjanesbæ og fljótlega bættist þá við í rekstri bæjarins tveir leikskólar og einn skóli. Það var ekki nóg með að nýtt hverfi myndaðist á Ásbrú heldur urðu á stuttum tíma tvö önnur hverfi, eitt í Innri Njarðvík og annað í brekkunni sem einu sinni skildu að Njarðvík og bandarískt svæði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það var kappsmál þáverandi bæjarstjóra að fjölga íbúum. Hann lét setja upp skilti við Reykjanesbrautina þar sem tölur um fjölgun bæjarbúa var settar á. Það var mikil uppbygging og fjölgaði bæjarbúum hratt. Reykjanesbær var kominn með vaxtaverki þegar það verður bankahrun, eitthvað sem enginn vildi trúa að gæti gerst. Jú 6. október 2008 kom þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde og sagði þessi eftirminnilegu orð: „Guð blessi Ísland.“

Annar skellur kom á Reykjanesbæ og jú reyndar allt landið líka. Við vitum það að ekki er hægt að eyða stöðugt um efnum fram þegar innistæðan er ekki til, en þá var oft og iðulega var talað um „gúmmítékki.“ 

Frá því að þetta var hefur tala íbúa samt næstum tvöfaldast og Reykjanesbær orðin 4 stærsta sveitarfélag á landinu. Þegar fjölgunin er eins mikil og hún hefur verið s.l. áratugi þá reynir það mjög mikið á alla innviði og þjónustu við íbúa. Í takt við þessa þróun er líka mikil þörf á fagfólki, sem ekki alltaf haldast í hendur.

Fyrir átta árum hófst ferill minn í bæjarpólitík. Þegar leitað var til mín um að koma í framboð, þurfti ég ekkert að hugsa mig lengi um. Ég var ósátt með það hvernig bærinn var rekinn. Sem mér fannst ein óráða sía og var þess vegna til í að hreinsa til þó að lífið sé svo mikið skemmtilegra þegar maður getur eytt peningunum í eitthvað gott eða skemmtilegt. Í staðinn hafa síðustu ár farið í að greiða niður skuldir sjálfstæðismanna. Á þessum tíma höfðu sjálfstæðismenn líka selt allar fasteignir Reykjanesbæjar inn í Fasteign, félag sem átti að vera svo hagkvæmt að halda við fasteignum og var þá reynt að selja íbúum þá hugmynd að það væri hagkvæmara. Í dag hefur Reykjanesbær keypt allar þessar eignir aftur úr þrotabúi Fasteignar.

Sveitarfélagið rekur í dag 7 skóla og 11 leikskóla í hverfum sveitarfélagsins og fleiri skólar og leikskólar eru komnir á teikniborðið, því þörfin er svo sannarlega til staðar. Auðvitað glímum við líka við raka og sveppi í leikskólum og skólum Reykjanesbæjar eins og önnur sveitarfélög, sem má rekja til þess að viðhald á eignum var ekki nægilegt.

Reykjanesbær er mikið fjölmenningar samfélag og eru töluð um eða yfir 90 tungumál í Reykjanesbæ, sem er mikil áskorun fyrir samfélagið og alla stoðþjónustu bæjarins. Sem jafnaðarmaður tel ég það okkar skyldu fyrir samfélagið að taka á móti fólki sem eru að flýja heimaland sitt af einhverri ástæðu. Ég horfi hins vegar líka á og veit það er erfitt og kostnaðarsamt þegar samfélag stækkar svona hratt því skóli og leikskóli er stærsti rekstrarliðurinn. Bær sem hefur tekist á við 3 kreppur (með covid), töluð eru um 90 tungumál. Bær sem hefur tekið á móti fólki á flótta frá heimalandi og þegar við sögðum NEI, þegar óskað var eftir að við tækjum á móti fleira flóttafólki þá var ekki hlustað á okkar og tók útlendingastofnun þá  á leigu tvær blokkir á Ásbrú og hver ætli sé að þjónusta þetta fólk? Jú það er nefnilega Reykjanesbær, bærinn sem er að reyna styrkja innviði í bæjarfélaginu, laga-og gera við skóla og leikskóla. Byggja einnig nýja skóla og leikskóla og flytjum fram og til baka einingar til að ráða við að taka við einstaklingum sem eru að flytja í mismunandi hverfi bæjarfélagsins. 

Þegar skoðað er hversu þungur róðurinn er á sveitarfélaginu er, þá vonast ég til að ríkið komi til móts við sveitafélag sem nú telur tæp 22 þúsund bæjarbúa, 27% af þeim er fólk með annan ríkisborgararétt/móðurmál en íslensku.Það er von okkar að næsti skóli rísi neðst á Ásbrú og svo leikskóli á áætlun í Hlíðar- og Dalshverfi 3 næst. Alltaf þarf þó að meta og greina aldur íbúa í þeim hverfum sem bæta þarf innviði, þá þurfum við líka að hugsa um alla stoð þjónustu sem fylgir svona mikilli fjölgun í bæjarfélaginu.

Það má segja að Reykjanesbær sé með vaxtaverki og aðkoma ríkisins sé nauðsynleg, enda greiddi ríkið ekki fasteignaskatt  af öllum þeim byggingum sem það áttu á Ásbrú.

Ég hvet fleiri sveitarfélög til að koma að borðinu og taka á móti fólki sem er að flýja heimaland sitt af einhverri ástæðu.

Ást og friður