Suðurnesjabær sendir Vegagerðinni tóninn og segir öryggi íbúa í húfi
Bæjarráð Suðurnesjabæjar gerir alvarlega athugasemd við framkvæmd Vegagerðarinnar á vetrarþjónustu í sveitarfélaginu eftir að ófærð lamaði umferð í morgun. Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í dag.
Að morgni miðvikudagsins 29. október var Sandgerðisvegur lokaður, sem og vegurinn milli Sandgerðis og Garðs, þar sem snjómokstur hafði ekki farið fram á þessum leiðum. Að sögn bæjarráðs lokuðust þar með allar leiðir til og frá Sandgerði og komst fjöldi íbúa hvorki til vinnu né skóla. Þá tafðist för starfsfólks til Flugstöðvar og farþegar misstu af áætluðu flugi. Atvinnulíf og þjónusta innan sveitarfélagsins urðu jafnframt fyrir miklum truflunum.
Í bókun bæjarráðs segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem slík staða komi upp „vegna þess að vetrarþjónusta Vegagerðarinnar er ekki framkvæmd eins og vera ber“. Ráðið bendir á að öryggi íbúa sé í húfi þegar þjóðvegir lokist: sjúkrabílar og slökkviliðsbílar gætu ekki komist á vettvang ef atvik kæmu upp.
„Bæjarráð Suðurnesjabæjar gerir alvarlega athugasemd við það hvernig framkvæmd Vegagerðarinnar á snjómokstri er í Suðurnesjabæ,“ segir í bókuninni. „Allt of oft kemur sú staða upp að þjóðvegirnir í sveitarfélaginu mæta afgangi í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar og er það með öllu óásættanlegt fyrir íbúa Suðurnesjabæjar.“
Bæjarráð krefst þess að Vegagerðin tryggi eðlilega vetrarþjónustu í Suðurnesjabæ „þannig að ekki komi aftur upp þær aðstæður sem voru að morgni 29. október 2025.“






