Kalka atvinna okt 25
Kalka atvinna okt 25

Aðsent

Suðurnesin eiga að vera sókn nýsköpunar en ekki biðstofa tækifæra
Fimmtudagur 23. október 2025 kl. 09:38

Suðurnesin eiga að vera sókn nýsköpunar en ekki biðstofa tækifæra

Suðurnes eru einstakt og kraftmikið svæði þar sem stórbrotin náttúra, jarðhiti og brimkennd strönd mætast í seilingarfjarlægð frá höfuðborginni, á sama tíma og Keflavíkurflugvöllur tengir svæðið og landið allt beint við umheiminn. Hér mætast náttúruöfl og nýsköpun, orka og hugvit, fjölbreytt samfélag og vaxandi tækifæri á sviðum menntunar, ferðaþjónustu, orkumála og skapandi greina. En allt er breytingum háð og því ber að tryggja framtíð Suðurnesja sem svæði þekkingar, menntunar og framfara.

Tillaga um Háskólafélag Suðurnesja

Í því ljósi hyggst ég brátt leggja fram tillögu til þingsályktunar um stofnun Háskólafélags Suðurnesja (HFSN). Markmið tillögunnar er að efla menntun, rannsóknir og nýsköpun á Suðurnesjum og tengja saman ríki, sveitarfélög, fyrirtæki, menntastofnanir og almenning í sameiginlegri framtíðarsýn fyrir svæðið.

Háskólafélagið yrði vettvangur samvinnu og þróunar þar sem menntun, atvinnulíf og nýsköpun styðji hvort við annað. Með fjölbreyttari námsleiðum, fjarnámi og símenntun má hækka menntunarstig, efla hæfni fólks á vinnumarkaði og auka samkeppnishæfni svæðisins. Þá gæti félagið tengt saman rannsóknir og atvinnuuppbyggingu, stutt við frumkvöðla og skapað ný störf í takt við græna og stafræna umbreytingu atvinnulífsins.

Svæði tækifæra þrátt fyrir áskoranir

Það er öllum ljóst að fyrirtæki og íbúar Suðurnesja hafa staðið frammi fyrir miklum áskorunum síðustu ár. Jarðhræringar hafa sett líf fjölskyldna í uppnám, atvinnulífið hefur glímt við óvissu og fall flugfélagsins Play minnti á hve viðkvæmt atvinnuumhverfið getur verið.

Auk þess hefur íbúasamsetning svæðisins tekið örum breytingum á síðustu árum, sem kallar á að styrkja samfélagið í sessi með sterkari innviðum.

Umræða sem þarf að eiga sér stað

Vel má vera að önnur útfærsla, heiti eða skipulagsform henti betur til að ná ofangreindum markmiðum. En stofnun Háskólafélags Suðurnesja er raunhæf, framtíðarmiðuð og ábyrg tillaga sem sannarlega verðskuldar rækilega og opinskáa umræðu um hvernig megi tryggja framtíð svæðis sem á allt undir því að menntun, hugvit og samvinna fái að blómstra. Suðurnesin eiga einfaldlega að vera sókn nýsköpunar en ekki biðstofa tækifæra.

Halla Hrund Logadóttir,
þingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi.

Dubliner
Dubliner