BVT
BVT

Aðsent

Baráttan við lömunarveiki - 24. október
Föstudagur 24. október 2025 kl. 06:37

Baráttan við lömunarveiki - 24. október

Lömunarveiki, sá hræðilegi sjúkdómur sem rændi þá sem fyrir urðu hreyfigetu og lífsgæðum er sjaldan í umræðunni á Íslandi. Það er þakkarvert að vegna bólusetninga er lömunarveiki ekki vandamálið sem það var fyrir 70 árum á Íslandi. Börn eru ekki lengur fórnarlömb í samfélagi okkar.

En hið sama verður ekki sagt um önnur lönd. Árið 1985 hófst átak fyrir tilstilli Rótarýhreyfingarinnar, Rotary International, Alþjóða Heilbrigðisstofnunarinar, WHO, Sameinuðu Þjóðanna og ríkisstjórna margra ríkja, til þess að útrýma lömunarveiki. Í upphafi var ætlunin að því mikla verki lyki árið 2005 á 100 ára afmæli Rótarýhrefingarinnar. Það tókst ekki, því margar hindranir urðu í veginum, sumar vegna andstöðu fólks á afskekktari svæðum og fordóma í garð afskipta vestrænna ríkja. Nú er svo komið að enn er við vanda að fást, einkum í Pakistan og Afganistan. Hægt og bítandi sækir þó átakið á.

Rótarýhrefingin hefur lagt mikið fé í þessa baráttu ásamt miklu starfi sjálfboðaliða, sem farið hafa í bólusetningarferðir einkum í Afríku og Asíu hin síðari ár. 

Hinn 24. október ár hvert er dagurinn sem sérstaklega er minnst baráttunnar við lömunarveiki, Polio, sem gengur  undir nafninu Polio Plus meðal rótarýfélaga og ítrekar skyldur klúbbana til að styðja við þessa herferð. Rótarýklúbbur Keflavíkur og félagar hans eru þar engin undantekning og leggur að jafnaði samsvarandi 100 bandaríkjadölum á hvern félaga ár hvert. Það er framlag okkar til þess að gera heiminn betri í þessu samhengi. Við fögnum því á þessum degi að leggja þessu mikilvæga málefni lið, sem þó er aðeins eitt af mörgum sem Rótarýklúbbur Keflavíkur leggur lið, einng í nærumhverfinu.

Við skulum því láta 24. október 2025 vera okkur áminningu um að láta gott af okkur leiða.

Ólafur Helgi Kjartansson

Rótarýfélagi og baráttumaður Polio Plus

Dubliner
Dubliner