Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Það birtir til
Fimmtudagur 11. desember 2025 kl. 09:12

Það birtir til

Nú hefur bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga afgreitt síðustu fjárhagsáætlun þessa kjörtímabils. Þessi fjárhagsáætlun markar ákveðin tímamót enda hefur verið unnið markvisst eftir ákveðinni markmiðasetningu sem lagt var af stað með í upphafi kjörtímabils.

Hagræðingu í rekstri verður skilað til íbúa í formi lækkunar fasteignaálaga og eflingar þjónustu. Álagning fasteignaskatta á íbúarhúsnæði lækkar úr 0,42% í 0,28%. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta verði jákvæð um 168 milljónir króna eða 5,6% af tekjum. Skuldaviðmið verði 47,8% í árslok 2026 og áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta verði um 340 milljónir króna eða 11,4 % af heildartekjum.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Sveitarfélagið Vogar er heilsueflandi sveitarfélag og taka áherslur í fjárhagsáætlun og starfsemi þess mið af því sem og áherslur um að styðja við fjölskyldur og samfélagslega uppbyggingu. Þannig verður hönnun við uppbyggingu Stóru-Vogaskóla lokið á komandi ári og bætt verður við deild innan Heilsuleikskólans Suðurvalla sem þýðir að biðtími eftir leikskólaplássum mun styttast. Þá verður unnið að fræðslustefnu og íþrótta- og tómstundastefnu sveitarfélagsins á nýju fjölskyldusviði á árinu 2026. Styrkir til íþrótta-, æskulýðs- og menningarmála verða auknir. Frístundastyrkur hækkar um 18% og verður 50.000 kr. og námsgögn verða gjaldfrjáls. Viðhald verður aukið í stofnunum og á götum bæjarins. Fyrsta áfanga göngu- og hjólastíg um Vogastapa yfir til Reykjanesbæjar verður hrint í framkvæmd sem skapar ný tækifæri í samgöngum á milli sveitarfélaganna. Áhersla verður lögð á uppbyggingu atvinnulífs með sérstakri áherslu á Keilisnes.

Sameiginleg sýn og samstarfsvilji allra bæjarfulltrúa hefur skapað þann grunn að nú er hægt að sækja fram, samfélaginu til heilla. Sá árangur sem nú þegar hefur náðst á þessu kjörtímabili er dugnaði og elju starfsfólks og stjórnenda sveitarfélagsins að þakka. Þrátt fyrir efnahagslega óvissu og fjárhagsþrengingar undanfarin ár er farið að birta til í Vogum.

Birgir Örn Ólafsson,
forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga

VF jól 25
VF jól 25