Vörumiðlun
Vörumiðlun

Aðsent

Takk fyrir okkur Suðurnesjafólk!
Föstudagur 3. maí 2024 kl. 06:00

Takk fyrir okkur Suðurnesjafólk!

Við áttum dásamlegan dag á Suðurnesjum, mánudaginn 22.apríl. Hann fer kannski í sögubækurnar fyrir hvað veðrið var guðdómlegt. Blakti ekki hár á hundsrófu, eins og afi var vanur að segja. Fjallasýnin yfir flóann var fögur og ævintýralegt að aka fram hjá lifandi eldgosi á leið til Keflavíkur.

Við hefðum ekki getað fengið betri fræðslu og leiðsögn um Reykjanesbæ. Hófum daginn á bæjarskrifstofunum í Tjarnargötu, þar sem við hittum Kjartan Má, bæjarstjóra og hans fólk. Það er óumdeilt að Keflavík er vagga rokksins á Íslandi, og okkur finnst því vel við hæfi að hafa tónlistarmann og fyrrum skólastjóra Tónlistarskólans í forsvari fyrir bænum. Seinna um daginn heimsóttum við umhverfis- og framkvæmdasvið Reykjanesbæjar í SBK húsinu. Þar kynnti Guðlaugur Sigurjónsson fyrir okkur helstu viðfangsefni í umhverfis-, skipulags og og byggingarmálum. Þar er sannarlega nóg að gera og mikilvæg mál á dagskrá.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Leið okkar lá síðan í fróðlega heimsókn til Brunavarna Suðurnesja og átta sig á þeirri miklu skipulagningu sem liggur að baki starfi þessa fólks sem við treystum svo algerlega á. Það var gaman að skoða Aðaltorg í fylgd Ingvars Eyförð – og góður upptaktur að innliti í fleiri verslanir og gallerí seinna um daginn.

Við fengum dýrindis hádegismat á Réttinum, sem seðjar greinilega marga svanga á hverjum matmálstíma. Eftir matinn heimsóttum við fyrirtæki sem Björn er sérlega spenntur fyrir, því hann er menntaður heilsukokkur. Skólamatur á Iðavöllum framleiðir og selur í áskrift máltíðir fyrir börn í leik- og grunnskólum. Hjá fyrirtækinu starfa um 170 manns og helst vel á starfsmönnum. Þarna ríkir jákvæður andi, enda er viðfangsefnið mikilvægt.

Síðdegis skruppum við í Sandgerði og Garðinn – enn í þessari sjaldgæfu blíðu. Ég er alin upp í kærleika til Garðsins, því afi talaði alltaf svo fallega um Guðmund frá Gerðum í Garði, - þann mikla útgerðarmann og frumkvöðul. Mér hefur alltaf fundist ég eiga svolítið í Garði síðan, - eða kannski að Garðurinn ætti mig. Í þetta sinn urðum við þeirrar óvæntu ánægju aðnjótandi að rekast á Gyrði Elíasson, með fangið fullt af málverkum. Ljóðskáldið góða yrkir líka með litum. Hann hefur haldið einstaka málverkasýningu í Garðinum undanfarnar þrjár helgar, en þau hjónin fluttu þangað fyrir 6 árum. Málverkasýningin sló svo rækilega í gegn, að sumir urðu frá að hverfa vegna þess hvað biðraðir voru langar. Nú er henni lokið og Gyrðir bauð okkur að líta inn til sín við tækifæri, sem við sannarlega ætlum að gera.

Lokahnykkurinn á þessum frábæra degi var fjölmennur opinn fundur á Hótel Keflavík, þar sem skemmtilegar samræður sköpuðust í góðri stemningu. Það er ómetanlegt að fá að fara um landið og hitta fólk.

Takk fyrir góðar móttökur, Reykjanes!

Halla Tómasdóttir.