Aðsent

Svartur blettur í sögu Ríkisútvarpsins
Föstudagur 5. maí 2023 kl. 06:51

Svartur blettur í sögu Ríkisútvarpsins

Það er óbærileg staðreynd að Ríkisútvarpið – Útvarp allra landsmanna – hefur ráðist að heiðri og mannorði hluta íslensku þjóðarinnar með ásökunum um glæpsamlega hegðun.

Í nýlegum útvarpsþætti á RÚV var eftirfarandi flutt orðrétt:

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Mikið vantaði upp á löghlýðni Keflvíkinga almennt. Meirihluti allra bæjarbúa hefur um langt skeið lifað meira eða minna á allskyns lögbrotum.“

(Lesið upp úr ritstjórnargrein Vikutíðinda)

Með flutningi þessa órökstuddu alhæfinga hefur höfundur útvarpsþáttarins „Myrtu þeir Eggert?“ reynt að byggja upp ímynd af Keflvíkingum sem glæpahyski. Glæpamönnum sem auðvitað voru líka tilbúnir að myrða laganna vörð í bænum.

Ég er dolfallinn, hneykslaður og sár að heyra þennan ófögnuð. Ég er hryggur fyrir hönd alls þess sómafólks sem ég þekkti á mínum uppvaxtarárum í Keflavík. Fólk sem mátti ekki vamm sitt vita – strangheiðarlegt og sýndi með framkomu sinni að það vildi leggja allt sitt af mörkum til að skapa fyrirmyndarsamfélag á Suðurnesjum.

Dagskrárgerðarmaður RÚV hefur áður reynt að sverta ímynd Keflvíkinga fyrir þjóðinni í svipaðri þáttaröð, þáttaröð um Jósafat Arngrímsson. Jósafat var svartur sauður sem fluttist ungur á Suðurnes frá Ísafirði með siðlausan og einbeittan brotavilja í þeim eina tilgangi að að auðgast sem mest. Að reyna nú að smyrja slík karaktereinkenni yfir á aðra íbúa Suðurnesja er að mínu mati ekkert annað en siðleysið sjálft.

Jósafat var ekki einn um að flytja og setjast að á Suðurnesjum. Miklir fólksflutningur voru af allri landsbyggðinni – fólk í leit að atvinnu. Ný kynslóð Íslendinga sem sáu fyrir sér ný tækifæri og bætt lífsskilyrði á Suðurnesjum. Sjósókn og fiskvinnsla var orðin ein sú öflugasta á landinu og þar voru atvinnu- og tekjumöguleikar. Sannir Íslendingar – menn og konur alin upp í innsta kjarna þjóðarinnar með arf aldanna í sálinni, með dugnað og metnað fyrir þroska og afkomu síns fólks. Þetta urðu Suðurnesjamenn.

Hér er fullyrt að flestir íbúar Keflavíkur séu siðlaust glæpahyski. Að þáttagerðarfólk RÚV skuli lepja upp þennan órökstudda sleggjudóm og nota sér til framdráttur í þessum þætti er þeim til háborinnar og ævarandi skammar. Umfjöllun þeirra er í stíl True Crime Podcast og gulu pressunnar í Bretlandi og Bandaríkjunum. Fullkomlega ábyrgðarlaust og drifið áfram af hégómlegri athyglisþörf.

Ábyrgðin hvílir þó fyrst og síðast á stjórn Ríkisútvarpsins. Stjórn þáttagerða á RÚV ber ábyrgð á því að þúsundir íbúa á Suðurnesjum sitja nú undir órökstuddum ásökunum um glæpsamlega og siðlausa hegðun. Mannorðsmorð.

Suðurnesjamenn krefjast formlegrar afsökunarbeiðni frá stjórn Ríkisútvarpsins.

20. apríl 2023,
Tómas Jónsson.