Sterk fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar
Á dögunum samþykkti meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fjárhagsáætlun fyrir 2026-2029.
Gert er ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu í A-hluta bæjarsjóðs fyrir 209 milljónir og 1.710 milljónir fyrir samstæðuna árið 2026.
Á sama tíma var samþykkt níu mánaða uppgjör fyrir árið 2025. Sú niðurstaða endaði í 883 milljónum en gert var ráð fyrir 314 milljónum í jákvæða niðurstöðu, sem sagt betri niðurstaða um 569 milljónir fyrir fyrstu níu mánuði ársins.
Við höfum fjárfest á árinu í nýju 80 rúma hjúkrunarheimili sem opnar fljótlega, opnað þrjá leikskóla með pláss fyrir 145 börn, opnað stærra bókasafn í Hljómahöll, opnað bókasafnið í Stapaskóla fyrir almenning, opnað Icemar höllina í Innri-Njarðvík ásamt sundlaug með heitum pottum sem mun nýtast vel fyrir stækkandi hverfi Innri-Njarðvíkur.
Við bættum umferðarflæði um Njarðarbraut með nýju hringtorgi við Fitjabakka á árinu og höldum áfram á næsta ári með hringtorgum við Grænás og Bergás.
Við höldum ótrauð áfram með uppbyggingu Holtaskóla og Myllubakkaskóla auk fjölda annarra verkefna.
Eftir sem áður gætum við þess að gjöld séu ekki umfram tekjur. Á árinu 2026 lækkum við álagningarhlutfall A-skatts fasteigna úr 0,25% í 0,23% en C-skattur á atvinnuhúsnæði helst óbreyttur í 1,45%. Þar er Reykjanesbær þó með lægsta álagningarhlutfallið á atvinnuhúsnæði á Suðurnesjum og einnig þegar miðað er við sambærileg sveitarfélög fyrir utan Hafnarfjörð.
Skuldaviðmið Reykjanesbæjar er samkvæmt útkomuspá 2025 alls 108,6% eftir lántöku, sem er vel undir löglegu hámarki um 150%.
Reykjanesbær er í uppbyggingarfasa enn sem áður, staða fjármála er góð og frábær tækifæri fram undan í okkar góða Reykjanesbæ.
Guðný Birna Guðmundsdóttir,
forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.







