bygg 1170
bygg 1170

Aðsent

Sjávarauðlindaskóli - sumarskóli í Grindavík
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
föstudaginn 5. júlí 2019 kl. 09:22

Sjávarauðlindaskóli - sumarskóli í Grindavík

Dagana 24.-27. júní sóttu 13 ungmenni Sjávarauðlindaskólann – sumarskólann, sem er samstarfsverkefni Vinnuskólans í Grindavík, Fisktækniskóla Íslands og Codlands, sem er fyrirtæki í eigu Vísis hf. og Þorbjarnar í Grindavík þar sem unnið er að því að hámarka nýtingu sjávarafurða með það fyrir augum að auka verðmæti afurða, en Fisktækniskólinn er skóli á framhaldsskólastigi sem býður upp á fjölbreytt og hagýtt nám í sjávarútvegi.

Ungmennin komu úr 9. bekkjar árgangi Grunnskólans, en hjá þeim er Sjávarauðlindaskólinn – sumarskóli valfrjáls og þeir sem sækja skólann halda launum meðan á skólanum stendur.

Markmiðið með starfinu er að veita ungmennum innsýn í fjölbreyttan sjávarútveg og opna augu þeirra fyrir áhugverðum tækifærum tengdum sjávarútvegi í sinni heimabyggð. Áhersla er lögð á að kynna fullvinnslu aukaafurða úr sjávarfangi. Viðfangsefnin byggja á stuttum kynningum og fyrirlestrum og verkefnavinnu hópsins og kynningar á verkefnum.

Meðal viðfangsefna hópsins var hópefli, ratleikir sem tengdust upplýsingaöflun um sjávarútvegsfyrirtæki í Grindavík, fræðsla um nytjafiska, sjávarútvegur á Íslandi, nýsköpun í sjávarútvegi og sjálfbær þróun.

Einum degi varði hópurinn í heimsókn til Reykjavíkur þar sem áhugaverðir staðir voru heimsóttir m.a. Slysavarnarskóla Sjómanna, Sjávarklasinn, Sjóminjasafnið og Marel sem er samstarfsaðili Fisktækiskólans um nám. Ekki var annað að sjá en hópurinn væri ánægður með þátttökuna og greinilegt að margt kom þeim á óvart.

Reynt var að gæta þess að hafa framsetninguna skemmtilega og áhugaverða fyrir unglingana. Í lokin var svo fiskiquiz, pizzuveisla og útskrift.

Gunnlaugur Dan