Dubliner
Dubliner

Aðsent

Ríkisstjórnin ók fram hjá Suðurnesjum
Mánudagur 8. desember 2025 kl. 09:33

Ríkisstjórnin ók fram hjá Suðurnesjum

Ný samgönguáætlun ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins liggur nú fyrir. Hún átti að marka upphaf stórátaks í innviðauppbyggingu, enda héldu stjórnarflokkarnir því stöðugt á lofti í kosningabaráttu og stjórnarsáttmála að hér yrði hafist handa í stórum stíl. Þar að auki fullyrtu þau afdráttarlaust að skattar yrðu ekki hækkaðir á almenning.
Nú sjáum við hins vegar annað: skattarnir hækka – en framkvæmdunum er frestað.

Skattaloforðin brutu þau og innviðaloforðunum gleymdu þau

Íbúar Suðurnesja finna hvað eftir annað fyrir þessari stefnubreytingu. Hækkanir á sköttum á ökutæki, þyngri álögur á ferðaþjónustu, afnám samsköttunar hjóna og 50% hækkun á skatti á leigutekjur eru allt hluti af pakkanum sem núverandi ríkisstjórn ætlar að innleiða. Þetta mun bitna sérstaklega á heimilum, atvinnulífi og lífsgæðum hér á svæðinu.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

En þegar kemur að loforðunum um auknar samgönguframkvæmdir?
Þá er litlu sem engu fylgt eftir. Formaður samgöngunefndar Alþingis er úr Viðreisn og býr á Suðurnesjum. Flokkur fólksins á fyrsta þingmann Suðurkjördæmis. Samgönguráðherra kom hingað og talaði um metnaðinn og tækifærin. Ég studdi áform hans með opnu bréfi og lagði fram tillögur til að flýta framkvæmdum.

En niðurstaðan í áætluninni sem nú var kynnt er skýr: Suðurnesin dragast aftur úr, enn einu sinni.

Frestanir og niðurskurður

Tvöföldun Reykjanesbrautar, sem er ein allra mikilvægasta framkvæmd landsins, er frestað. Uppbyggingu Nesvegar, sem er mikilvægt öryggismál í ljósi jarðhræringa og aukinna umsvifa í atvinnulífinu, er frestað. Efling almenningssamgangna snýst í að verða samdráttur. Endurbætur á aðalleiðum inn í sveitarfélögin eru látnar bíða og þörfin fyrir auknar sjóvarnir ekki tekin alvarlega.

Á sama tíma og ríkisstjórnin rukkar okkur um hærri skatta, þá skerðir hún þær framkvæmdir sem hún taldi brýnastar og notar sem réttlætingu fyrir skattheimtu.

Þetta er öfugsnúin forgangsröðun og hún bitnar verst á Suðurnesjum.

Höfum verk að vinna – saman

Samgönguáætlunin fer nú í þinglega meðferð. Þar er okkar tækifæri til að knýja fram breytingar, skila umsögnum og tala fyrir því að Suðurnesin verði ekki aftur skilin eftir í vegarkantinum. Við þurfum að standa saman, óháð því hvaða flokk við styðjum, um að löngu lofaðar framkvæmdir verði ekki bara orð á blaði.

Íbúar Suðurnesja eiga rétt á sama öryggi og þjónustu og fólk annars staðar á landinu og við munum halda áfram að tala skýrt þegar ríkisstjórnin reynir að aka fram hjá okkur.

Vilhjálmur Árnason,

ritari Sjálfstæðisflokksins

Dubliner
Dubliner