Heklan
Heklan

Aðsent

Dulbúnar skattahækkanir og meirihlutinn slær gervigrasvöll af á þessu kjörtímabili í Suðurnesjabæ
Föstudagur 12. desember 2025 kl. 16:37

Dulbúnar skattahækkanir og meirihlutinn slær gervigrasvöll af á þessu kjörtímabili í Suðurnesjabæ

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar var fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2026–2029 samþykkt með atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans. Þrátt fyrir að meirihlutinn kynni áætlunina sem skattalækkun felur hún í sér raunhækkun á álögum á fasteignaeigendur í bænum.

Þótt álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækki á pappírnum eru aðrir álagningar- og gjaldaliðir hækkaðir á sama tíma. Samkvæmt útreikningum leiðir þetta til þess að heildarálögur á fasteignaeigendur í Suðurnesjabæ hækka milli áranna 2025 og 2026 um tæplega 30 milljónir króna.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk


Önnur pólitísk tíðindi eru þau að meirihlutinn hefur ákveðið að slá gervigrasvelli í Suðurnesjabæ af á þessu kjörtímabili, þrátt fyrir að slíkt verkefni sé sérstaklega nefnt í stjórnarsáttmála flokkanna sem mynda meirihlutann. Þetta lýsir í raun getuleysi meirihlutans til að klára málið, sem er miður í ljósi þess að mikil vöntun er á vetraraðstöðu fyrir knattspyrnuiðkun í sveitarfélaginu.

Skortur á vetraraðstöðu hefur orðið þess valdandi að nánast öll knattspyrnuiðkun sem stunduð er í Suðurnesjabæ fer nú fram annaðhvort í Reykjanesbæ eða á höfuðborgarsvæðinu yfir vetrarmánuðina.

Rekstur Suðurnesjabæjar er í grunninn traustur og tölurnar í áætluninni sýna það skýrt. Áætluð rekstrarniðurstaða er jákvæð um 325 m.kr. í A-hluta og 406 m.kr. í samstæðu A og B. Veltufé frá rekstri nemur 996 m.kr. (12,8%) og handbært fé í árslok er áætlað 851 m.kr. Þessi staða undirstrikar að svigrúm er til staðar til að forgangsraða betur og vanda vinnubrögð, án þess að auka álögur á íbúa. Þegar rekstrarstaðan er jafn sterk og raun ber vitni ætti markmiðið að vera að létta byrðar heimilanna og efla raunverulegt samráð, frekar en að fela raunhækkun gjalda á bak við lækkun á einstökum prósentum.

Bókun frá bæjarfulltrúum Anton K. Guðmundssyni og Magnúsi Sigfúsi Magnússyni, lögð fram við afgreiðslu fjárhagsáætlunar:

Þó meirihlutinn lækki álagningarstuðla á fasteignaskatt er hann á sama tíma að hækka aðra álagningarstuðla. Af þeim sökum hækka skattar á fasteignaeigendur í Suðurnesjabæ milli áranna 2025 og 2026 um 29.711.812 kr.

Bæjarfulltrúarnir Anton K. Guðmundsson og Magnús Sigfús Magnússon vilja jafnframt gera athugasemdir við skort á samráði við gerð fjárhagsáætlunarinnar. Minnihlutinn fékk einungis aðkomu að tveimur vinnufundum þar sem eingöngu var farið yfir glærur og engar ákvarðanir teknar, auk þess sem ákvörðun um fundartíma var ekki í samráði við fulltrúa minnihlutans. Þetta fyrirkomulag samráðs var því hvorki fullnægjandi né í samræmi við það sem telja má eðlilegt í lýðræðislegum vinnubrögðum.

Af ofangreindum ástæðum geta bæjarfulltrúarnir Anton K. Guðmundsson og Magnús Sigfús Magnússon ekki stutt framlagða fjárhagsáætlun og sitja því hjá við afgreiðslu hennar.

Anton K. Guðmundsson - Oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ

Magnús Sigfús Magnússon – Bæjarfulltrúi í Suðurnesjabæ

VF jól 25
VF jól 25