Sandgerði, fallega Sandgerði
Það hefur stundum komið yfir mig löngun til að skrifa eitthvað um bæinn minn Sandgerði, núna Suðurnesjabæ. Þegar ég hef verið spurður um hvar ég eigi heima hef ég ávallt svarað: „Ég á heima í Sandgerði, fallegasta bæ á Íslandi“. Þegar ég fluttist til Sandgerðis í maí árið 1964 fyrir nákvæmlega 60 árum fannst mér ég koma inn í nýjan og framandi heim. Hafandi átt heima í Reykjavík og á Akureyri, var sjávarplássið Sandgerði gjörólíkt öllu sem ég átti að venjast. Þetta var dálítið eins og að koma nokkra áratugi aftur í tímann, en góð reynsla fyrir ungan mann. Allar götur bæjarins voru holóttar malargötur og fátt var um gangstéttar. Sumar götur voru meira að segja sundur grafnar langtímum saman vegna lagnavinnu og þess háttar. Daglegt líf gekk meira og minna út á útgerð og fiskvinnslu og fisklyktin og bræðslufílan (peningalyktin) lágu í loftinu dögum saman. Frystihús, fiskverkanir og beitningaskúrar voru víða um bæinn og höfnin iðaði af lífi alla daga þar sem um og yfir 100 bátar voru gerðir út. Já allt var öðruvísi en ég átti að venjast. Samt var eitthvað heillandi og skemmtilegt við að kynnast allt öðruvísi tilveru en ég hafði búið við áður.
Við Lóa fórum að búa á neðri hæðinni í Baldurshaga (Suðurgötu 1) hjá tengdaforeldrum mínum, Mikku og Gauja. Ég fór á sjóinn á fiskitroll með tengdapabba, Jóhanna fæddist í september og ég fór um það leyti að vinna hjá Jóni Axels í Nonna og Bubba. Já tíminn leið undur hratt. Kannski meira um fyrri árin síðar, en nútíminn er líka áhugaverður.
Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á því sem hefur verið að gerast í bænum og þess vegna lengi vel tekið virkan þátt í bæjarmálunum á ýmsan hátt. Ég var í hreppsnefnd á árum áður, var slökkviliðsstjóri í 14 ár og ég var í ýmsum nefndum og ráðum þar sem framtíð bæjarins mótaðist. Ég hef tekið þátt í kosningastarfi frá árinu 1966, áður en ég fékk kosningarétt sem þá miðaðist við tuttugu ára aldur. Eitt af því sem ég var mjög fylgjandi (og er enn), var að stækka og efla bæinn með sameiningu við önnur sveitarfélög. (Stundum verið skammaður af vinum og félögum fyrir það). Þess vegna var ég ánægður með sameininguna við Garðinn árið 2018. Ég hef reynt að fylgjast með gangi mála og margt hefur tekist vel, en eins og stundum er sagt, alltaf er eitthvað sem hægt er að gera betur.
Þegar mig langar til að fá meiri upplýsingar um einstök mál, þá hef ég stundum sent fyrirspurnir til stjórnenda bæjarins og jafnan fengið góð svör.
Hér nefni ég núna tvö dæmi sem ég sendi í mars á þessu ári. (Meira síðar)
Spurningar um framtíðarsjóð.
- Er það rétt að til sé svokallaður (300 mkr.) framtíðarsjóður Garðs sem er sérstaklega eyrnamerktur einhverjum verkefnum í Garði og megi fjármunir í sjóðnum alls ekki notast í Sandgerði?
- Ef þetta er rétt, eru þá fleiri sérhagsmunir til staðar sem eru eyrnamerktir öðrum hvorum eða báðum byggðakjörnum, Sandgerði og Garði?
Svar frá bænum var eftirfarandi:
Meðal eigna Suðurnesjabæjar er Framtíðarsjóður sem er ávaxtaður sérstaklega í samræmi við samþykktir hans. Þessir fjármunir eru eign sveitarfélagsins og ekki eyrnamerktir einstökum verkefnum frekar en aðrar peningalegar eignir sveitarfélagsins.
Spurning um fasteignagjöld (vegna mikilla umræðna um málið)
Ýmis sveitarfélög nota lægri álagningarprósentu vegna fasteignagjalda en notuð er hér í Suðurnesjabæ. Venjuleg fyrirtæki geta almennt ekki fyrirfram ákveðið tekjur sínar frá viðskiptavinum. Sveitarfélög hafa hins vegar rúmt svigrúm til þess að ákvarða tekjur sínar. Það er brýnt að fara vel með það vald. Miklar hækkanir, langt umfram verðlagsþróun íþyngja mörgum.
- Spurningin er, stendur til að lækka álagningu fasteignaskatts fyrir árið 2024?
Svar frá bænum var eftirfarandi:
Álagningarhlutfall fasteignaskatts fyrir árið 2024 var ákveðið við afgreiðslu fjárhagsáætlunar ársins 2024 og ekki stendur til að gera breytingar á því.
Hugur minn stendur til þess að skrifa meira um málefni bæjarins og koma á framfæri fleiri spurningum sem ég hef sent og fengið svör við. Það má alveg þakka fyrir allt sem vel er gert og einnig má gera athugasemdir við það sem gera má betur. Að lokum núna vil ég segja, að það eru forréttindi að fá að búa í góðu og fallegu bæjarfélagi.
Bestu kveðjur,
Jón Norðfjörð
([email protected])