Aðsent

Sál Voga og Vatnsleysustrandar
Föstudagur 18. ágúst 2023 kl. 06:05

Sál Voga og Vatnsleysustrandar

Sál hverrar byggðar er mannlíf, saga og náttúra. Sögulaus bær er þannig séð sálarlaus.

Sumir eiga fornar skrifaðar heimildir til að byggja á, t.d. Borgarfjörður með sitt frábæra landnámssetur í Borgarnesi, þar sem moðað er úr Egilssögu, Sturlungu og fleiri fornum ritum.  Aðrir eiga minjar magnaðrar atvinnusögu, eins og Ísafjörður, Akureyri og ekki síst Siglufjörður, þar sem blásið hefur verið nýju lífi í síldarævintýri tuttugustu aldar með Síldarminjasafninu þar – vel kryddað með þjóðlagasafni til heiðurs séra Bjarna Þorsteinssonar þjóðlagasafnara með meiru. Á Ísafirði og Djúpavogi hefur verið blásið nýju og öðruvísi lífi í eldgömul verslunarhús. Allt eru þetta fjölsóttir ferðamannastaðir, með mikið aðdráttarafl.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hvað með okkar aldagamla Vatnsleysustrandarhrepp? Hver er sál arftaka hans, Sveitarfélagsins Voga? Hér nam Ingólfur Arnarson land og lét eftir frændfólki sínu og vinum, en það er fáorð saga og engar þekktar minjar um það. Hér var róið til fiskjar úr hverri vör í aldir og á því byggðist mannlíf, í þéttu dreifbýli. Meðan svo háttaði til var strax árið 1872 byggður hér einn elsti barnaskóli landsins, hefur starfað samfellt síðan. Eitt af mörgum húsum þess skóla bjargaði og endurbyggði Minjafélagið hér í sveit og er þar vísir að skólasafni – rétt við Kirkjuna á Kálfatjörn, sem var stærsta sveitarkirkja landsins þegar hún var byggð 1893.

Um aldir var fiskur dreginn hér á land á undursmáum tvíæringum, enda örstutt að sækja og þurfti ekki stærri skip. Enginn slíkur bátur hefur varðveist en Haukur Aðalsteinsson, skipasmiður, hefur smíðað einn slíkan eftir lýsingu sem varðveist hefur. Sá sami Haukur hefur dregið útgerðarsögu byggðarinnar, allt frá um 1200 til 1930, saman í bók sem Minjafélagið gaf út síðastliðið haust, undir titlinum Út á Brún og önnur mið.

Til eru trillur frá fyrstu áratugum vélbátaútgerðar og fyrsti vélbáturinn sem smíðaður var fyrir byggðarlagið í Danmörku 1930 er enn heillegur og vilja Minjafélag Vatnsleysustrandar og Minjavernd ríkisins varðveita hann sem sönnunargagn um upphaf vélbátaútgerðar hér á landi á tuttugustu öld.

Með tilkomu svo stórra fiskiskipa (u.þ.b. tuttugu tonn) þurfti höfn. Besta hafnarstæðið reyndist vera í Vogum og því varð þéttbýlið þar til. Í frábærri bók sinni, Strönd og Vogar, sem Árni Óla, blaðamaður, tók saman upp úr 1960, var því spáð að Vogar yrðu síldarbær, en sú spá gekk ekki eftir. En Vogar urðu útgerðarbær, stærri höfn var byggð (sem þó telst nú vera smábátahöfn) og aðstaða til að salta, þurrka og frysta fisk. Byggð voru salthús, þurrkhús og tvö frystihús.

Fyrsta frystihúsið, Vogar hf., tók til starfa 1943 og starfaði fram undir 1990. Sú bygging stendur enn, að hluta til ónýt en heillegur kjarni. Fólk er ekki sammála um hvort beri að rífa húsið eða endurbyggja og ljá nýju líf. Sérfræðingar Minjastofnunar skoðuðu Voga hf. og sáu þar möguleika á að varðveita útgerðarsögu, enda markaði tilkoma þess varanleg spor í sögu byggðarinnar og er að auki eitt af elstu uppistandandi frystihúsum landsins. Þar mætti jafnframt skapa aðstöðu fyrir lista- og frístundastarfsemi og sögutengda ferðaþjónustu.

Í vor vann Eva Dögg Jóhannsdóttir, nemi í  arkitektúr við Listaháskóla Íslands, mastersverkefni um þessa byggingu og gerði athyglisverðar tillögur um varðveislu hennar og verðugt framhaldslíf, í máli, myndum og líkani. Verkefnið var meðal lokaverkefna nemenda á sýningu í gamla Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og vakti athygli. Evu Dögg kynnir það verkefni heimafólki í Vogum í Álfagerði á komandi Fjölskyldudögum, opnar þar fimmtudaginn 17. ágúst kl. 16. Krækja á verkefni Evu Daggar: https://architecturesforcare.cargo.site/II-Frystihusid-i-Vogum-Eva-Johannsdottir

Verkefnið er á ensku en þar er líka að finna þennan útdrátt Evu Daggar á íslensku: „Frystihúsið í Vogum var grundvöllur fyrir stækkun bæjarins. Frá byggingu þess 1941 var frystihúsið einn af stærstu vinnuveitendum bæjarins og var það allt fram á níunda áratuginn. Byggingin stendur auð í dag. Flestir íbúar hafa persónulega tengingu við bygginguna, en hún er samofin bæjarímyndinni. Er hægt að endurvekja frystihúsið til að styðja við félagslegar þarfir stækkandi Voga án þess að missa tenginguna við fortíðina? Stofnun menningarseturs sem nýtir aðlögunarhæfa endurnotkun getur stuðlað að þróun nýrra venja og hefða og skapað þannig grunn fyrir samfélagið áfram.“

Spakmæli manns sem vinnur að verndun mannvirkja og annars frá fyrri tíð: „Þar sem sögunni er haldið við og mannvirki fá endurnýjun lífdaga, þar er líf og þar er líka verðmætasköpun bæði í andlegum og veraldlegum skilningi.“

Vogum, sumarið 2023,
Þorvaldur Örn Árnason.