Flugger
Flugger

Aðsent

Námsstefna Samtaka heilsuleikskóla haldin í Reykjanesbæ
Sunnudagur 7. apríl 2024 kl. 06:13

Námsstefna Samtaka heilsuleikskóla haldin í Reykjanesbæ

Þann 4. nóvember 2005 voru Samtök heilsuleikskóla stofnuð í Kópavogi. Tilgangur þeirra er að stuðla að heilsueflingu í leikskólasamfélagi, gæta hagsmuna heilsuleikskóla, efla samheldni skólanna og skapa vettvang til fræðslu og skoðanaskipta. Á fyrsta aðalfundi samtakanna, sem haldinn var þann 17. mars 2006, var frumkvöðull og upphafskona Heilsustefnunnar, Unnur Stefánsdóttir, kosin fyrsti formaður samtaka heilsuleikskóla. Unnur Stefánsdóttir var, á þeim tíma leikskólastjóri leikskólans Skólatröð, sem seinna fékk nafnið Urðarhóll en Urðarhóll er jafnframt fyrsti heilsuleikskólinn á Íslandi. Leikskólinn fékk titilinn árið 1996 nokkrum árum áður en samtökin voru stofnuð.

Samtök heilsuleikskóla stóðu fyrir námsstefnu fyrir heilsuleikskóla landsins sem fram fór í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ föstudaginn 15. mars 2024. Námsstefnan bar yfirskriftina „Kveikjum neistann, nærum og njótum“. Tæplega 200 manns tóku þátt í deginum. Starfsmenn frá sextán skólum, þar af eru þrettán skólar heilsuleikskólar og þrír skólar á heilsubraut.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Forvarnarsjóður íþrótta- og tómstundaráðs í Reykjanesbæ veittu Samtökum heilsuleikskóla styrk sem nýttur var til þess að gera þessa námsstefnu að veruleika.

Aðalfundur Samtaka heilsuleikskóla var haldinn fimmtudaginn 14. mars 2024, í Búmannssal í Reykjanesbæ, daginn fyrir námsstefnudaginn sjálfan. 

Námsstefnuna skipulögðu stjórnendur fjögurra heilsuleikskóla, Heilsuleikskólinn Holtakot á Álftanesi, Heilsuleikskólinn Garðasel í Reykjanesbæ, Heilsuleikskólinn Heiðarsel í Reykjanesbæ og Heilsuleikskólinn Skógarás í Reykjanesbæ.

Námsstefnugestir mættu galvaskir í hús upp úr 8:30 þar sem tekið var á móti þeim með lyklakippu að gjöf með merki Heilsustefnunnar. Gestunum var vísað inn í sal þar sem boðið var upp á kaffi/vatn og létta morgunhressingu áður en dagskráin hófst formlega.

Námsstefnan var sett kl. 9 og stóð til kl 15:00. Sigrún Hulda Jónsdóttir, leikskólastjóri í Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi, setti námstefnuna. Í dag eru heilsuleikskólarnir orðnir 21 á landinu og eru þrír leikskólar til viðbótar sem eru á heilsubraut sem vinna að því markmiði að fá titilinn heilsuleikskóli.

Fyrsti fyrirlestur dagsins fjallaði um hvernig við kveikjum ástríðu barna í tengslum við hreyfingu, heilastarfsemi og vellíðan. Fyrirlesarinn, Hermundur Sigmundsson, er doktor í lífeðlisfræðilegri sálfræði og hefur unnið margar áhugaverðar rannsóknir sem snúa að menntun og þroska barna og hvernig er hægt að ýta undir ástríðu barna.

Anna Sofia Wahlström, verkefnastjóri við leikskólann Gefnaborg í Suðurnesjabæ, var með fyrirlestur þar sem hún fjallaði um leiðir til þess að hlúa að sköpunarþættinum í leikskólastarfi í tengslum við aðalnámskrá leikskóla. Hún fjallaði um sköpun í sinni víðustu mynd og hversu mikilvægt er að gefa börnum tækifæri til að skapa á sem fjölbreyttastan hátt.

Eftir hádegishlé var komið að þriðja og síðasta fyrirlesara dagsins en það var Björgvin Franz Gíslason, leikari. Björgvin Franz var með fyrirlesturinn „Okið undan sjálfum mér“ þar sem hann fjallaði um hvernig hann náði sjálfum sér úr vinnubrjálæði í innri ró og raunverulega starfsánægju og velti því upp hvernig maður nær þeim árangri að verða betri starfskraftur með því að verja meiri tíma með fjölskyldu og vinum.

Í lok dags var svo gestum námsstefnunnar boðið yfir á Rokksafn Íslands áður en haldið var heim á leið.


Skipulagsnefnd námsstefnunnar 2024:
Leikskólastjórar og aðstoðarleikskólastjórar
á Heilsuleikskólanum Holtakoti á Álftanesi,
Heilsuleikskólanum Garðaseli í Reykjanesbæ,
Heilsuleikskólanum Heiðarseli í Reykjanesbæ,
Heilsuleikskólanum Skógarási í Reykjanesbæ.