Lyfta.is
Lyfta.is

Aðsent

  • Mikilvægi tómstunda fyrir börn og ungmenni með fatlanir
  • Mikilvægi tómstunda fyrir börn og ungmenni með fatlanir
Mánudagur 19. maí 2014 kl. 15:30

Mikilvægi tómstunda fyrir börn og ungmenni með fatlanir

– Unnur Ýr Kristinsdóttir skrifar.

Frítími og þáttaka í tómstundastarfi hefur mikla þýðingu í lífi barna og ungs fólks. Í frítíma læra börn og ungmenni ýmislegt sem þau læra ekki á skólatíma eða inná heimilum sínum. Skipulagt tómstundastarf fyrir börn og ungmenni er talið hafa þýðingarmikið uppeldisgildi í nútímasamfélagi. Skipulagt og innihaldsríkt tómstundastarf að eigin vali er talið geta bætt vellíðan, heilsu, lífsgæði einstaklinga og haft mikið forvarnargildi.

Eiga rétt á jöfnum tækifærum
Rannsóknir hafa leitt það í ljós að börn og ungmenni með fötlun eru síður þátttakendur í skipulögðum tómstundum og eru líklegri en önnur að vera ein eða með foreldrum sínum í frítíma. Auk þess er ýmislegt sem bendir til að börn og ungmenni með fötlun eigi færri möguleika til tómstundaiðkunar en önnur. Það er réttur allra barna og ungmenna að fá að taka þátt í öllum þeim tækifærum sem bjóðast í skipulögðu tómstundastarfi, eins og 31.gr barnasáttmálans segir.


Vöntun á tómstundamöguleikum
Mikilvægt er að horfa á fötlun sem hluta af mannlegum margbreytileika. Á  undanförnu hef ég verið að kynna mér hvað er í boði fyrir börn og ungmenni með fatlanir hérna í Reykjanesbæ og framboðið er ekki upp á marga fiska. Ef það er litið sérstaklega á aldurinn 10-18 ára og skipulagt tómstundastarf sem á sér stað beint eftir skóla fyrir börn með fatlanir þá er Öspin við Njarðvíkurskóla og Eikin í Holtaskóla. Þessir tveir staðir halda út einhvers konar frístundaheimili fyrir börnin.

Frábær hugmynd
Ef við lítum til höfðuborgarinnar þá er margt sem við gætum tekið okkur til fyrirmyndar hérna í Reykjanesbæ. Mig langar til að nefna Frístundaklúbb, sem þar er starfræktur, fyrir börn á aldrinum 10-16 ára. Frístundaklúbburinn er opinn alla virka daga frá því að skóla lýkur á daginn og til klukkan 17 á daginn. Markmið klúbbsins er að vinna gegn félagslegri einangrun fatlaðra barna og unglinga. Starfið í klúbbnum er einstaklingsmiðað og ungmennin taka sjálf þátt í að móta dagskrá klúbbsins.

Meiri hamingja
Starfsemi frístundaklúbbs er svona mitt á milli frístundaheimilis og félagsmiðstöðvar. Starfið er fjölbreytt og farið er í ýmsar ferðir. Ég sem tómstunda- og félagsmálafræðingur sé að slík starfsemi gæti alveg orðið að veruleika í Reykjanesbæ og óumdeilt er að þörfin er til staðar. Börn og ungmenni með fatlanir eiga líka rétt á að fá að taka þátt í skipulögðu  tómstundastarfi.

Framsókn í Reykjanesbæ leggur áherslu á málefni fatlaðra í sinni stefnuskrá: http://www.framsokn.com/uploads/6/2/6/0/6260714/stefnuskr_framsknar__reykjanesb_2014.pdf Þar kemur m.a. fram að Framsókn muni beita sér fyrir því að auka framboð tómstunda fyrir fatlaða. Þar sem þessi málaflokkur er mér hugleikinn þá mun ég styðja Framsókn í komandi kosningum og setja X við B.

Heilbrigt félagsstarf er góð forvörn og byggir upp jákvæða og hamingjusama einstaklinga.

Unnur Ýr Kristinsdóttir,
Tómstunda- og félagsmálafræðingur.